Hlutfall karlkyns starfsmanna í leikskólum hefur aldrei verið hærra

Hagstofan hefur birt yfirlit yfir stöðu og þróun starfsfólks í leikskólum með tilliti til menntunar.

Þar kemur fram að einungis tæp 26% þeirra hafa formlega leikskólakennaramenntun sem þó er aukning um 43 starfsmenn frá fyrra ári. Það segir þó ekki alla söguna því annað starfsfólk með uppeldismenntun er um 20%. Í þeim hópi er einnig að finna fólk sem menntað hefur sig til starfa í leikskólum með diploma í leikskólakennarafræðum og leikskólaliðar en auk þess grunnskólakennarar og þroskaþjálfar. Þá kemur einnig fram að starfsfólki í leikskólum fjölgaði á sl. ári um 5,7% þó svo börnum hafi einungis fjölgað um 0,7% á sama tíma. Athyglisvert er að sjá að starfsmannavelta hefur ekki mælst minni frá því Hagstofan hóf að birta gögn um leikskóla fyrir 22 árum síðan og hlutfall karlkyns starfsmanna var orðið 8,1% og hefur aldrei verið hærra. Það má því með sanni segja að það séu ýmis jákvæð teikn á lofti í starfsumhverfi leikskólans.

Áhyggjuefni er hins vegar að af þeim rúma fjórðungi leikskólakennara eru 18,5% 60 ára eða eldri sem fara að huga að starfslokum og því viðbúið að hlutfall leikskólakennara í starfsliði leikskóla eigi enn eftir að lækka. Þau stöðugildi verða ekki fyllt með leikskólakennurum með meistargráðu í faginu á nánustu framtíð í ljósi þróunar sl. ára, hvað þá að markmiði laga um leikskóla um að 2/3 stöðugilda skuli mönnuð leikskólakennurum verði náð á komandi áratugum. Það ákvæði gerir það m.a. að verkum að leikskólastjórar geta ekki auglýst eftir t.a.m. leikskólaliðum eða starfsfólki með diplómu í leikskólakennarafræðum, fyrr en þeim hefur tekist að manna 2/3 hlutana, sem bindur óhjákvæmilega hendur þeirra. Við þessu þarf að bregðast með raunhæfum aðgerðum.

Frétt hagstofunnar.