Heimsmarkmiðin og sveitarfélögin

Nordregio, Norræna byggðastofnunin, hefur gefið út skýrslu um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og sveitarfélög á Norðurlöndum. Skýrslan nefnist Global goals for local priorities: The 2030 Agenda at local level og fjallar um brautryðjendur í innleiðingu eða first movers. Af þeim 27 sveitarfélögum sem skýrslan nær til eru tvö íslensk eða Kópavogur og Mosfellsbær.

Nordregio, Norræna byggðastofnunin, hefur gefið út skýrslu um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og sveitarfélög á Norðurlöndum. Skýrslan nefnist Global goals for local priorities: The 2030 Agenda at local level og fjallar um brautryðjendur í innleiðingu eða first movers. Af þeim 27 sveitarfélögum sem skýrslan nær til eru tvö íslensk ; Kópavogsbær og Mosfellsbær.

Á heildina litið, eru þær aðferðir sem norræn sveitarfélög styðjast við og sýn þeirra á innleiðingu heimsmarkmiðanna mismunandi frá einu sveitarfélagi til annars og einnig er íbúum, fyrirtækjum og félagasamtökum gert kleift að koma að viðkomandi verkefnum með misjöfnum hætti. 

Væntingar eru hins vegar svipaðar hvað aðkomu stjórnvalda snertir, en öll kalla sveitarfélögin eftir betri leiðbeiningum og skýrari upplýsingum um nálgun stjórnvalda gagnvart heimsmarkmiðunum, bæði í eigin landi og á Norðurlöndunum í heild.

Brautryðjendasveitarfélögin eiga það sameiginlegt að styðjast við heimsmarkmiðin í uppbyggingar- eða þróunarstarfi, s.s. við mörkun nýrrar umhverfisstefnu, í áætlanagerð fyrir bættum lífskjörum íbúa, í skipulagningu nýrra úthverfa og sameiningu sveitarfélaga svo að dæmi séu nefnd.

Í skýrslunni hefur sveitarfélögunum 27 verið skipt upp í tvo flokka, allt eftir því hvort verkefnin sem unnið er að fela í sér almenna eða afmarkaða innleiðingu (holistic or targeted approach) og fylla íslensku sveitarfélögin tvö hvorn sinn flokkinn. 

Brautryðjendastarf Kópavogbæjar felst í því, að sveitarfélagið hefur tekið heimsmarkmiðin upp í yfir markmið Kópavogsbæjar með það fyrir augum, að stuðla að auknum lífsgæðum íbúa á öllum sviðum mannlífsins. Samhliða hafa árangursmælingar verið teknar upp til að fylgja þessari markmiðssetningu eftir, þar á meðal vísitala félagslegra framfara. Um almenna nálgun er að ræða og skipar Kópavogur sér þar á bekk með sveitarfélögum á borð við Kaupmannahöfn, Malmö og Bergen. 

Brautryðjenda sveitarfélagið Mosfellsbær fer aðra og leið, en það vinnur að innleiðingu heimsmarkmiðanna með nýrri umhverfisstefnu sem sveitarfélagið vinnur nú að. Stefnan var upphaflega mörkuð á grunni Staðardagskrár 21 og nýtist nú sveitarfélaginu sem nálgun við heimsmarkmiðin. Nálgunin er að þessu leyti afmörkuð, eins og hjá Árósum, Tampere og Umeå, svo dæmi séu tekin af sveitarfélögum í afmarkaða flokknum.

Þess má svo geta, að svipaðar áherslur komu fram hjá sveitarfélögunum varðandi árangur stjórnsýslunnar (e. success factors) og voru eftirfarandi árangursþættir oftast nefndir:

  • Tryggðu pólitískan stuðning við verkefnið.

  • Fáðu svið, deildir eða stofnanir sveitarfélagsins að borðinu.

  • Tengdu heimsmarkmiðin við verkefni sem nú þegar er unnið að.

  • Byrjaðu verkefnið á því að ræða aðferðir og framkvæmd við heimamenn sem að málinu koma.

  • Myndaðu tengsl og leitaðu eftir samstarfi við önnur sveitarfélög.

  • Myndaðu tengsl og leitaðu eftir samstarfi við íbúa, fyrirtæki og félagasamtök.

  • Viðurkenndu í reynd að breytingar taka tíma.

  • Innleiddu heimsmarkmiðin með áþreifanlegum hætti í staðbundnum verkefnum.

Auk þess sem fjallað er um brautryðjendasveitarfélögin 27 gefur skýrslan greinargott yfirlit yfir aðkomu stjórnvalda í hverju Norðurlandanna. Óhætt er því að mæla með lestri hennar við áhugafólk um heimsmarkmiðin og sveitarfélögin.