Áhrif covid á efnahag og samfélag lagðist misþungt á sveitarfélög á landinu og viðbrögðin voru misjöfn.
Þetta kom fram í fróðlegum erindum þeirra Dags B. Eggertssonar borgarstjóra sem flutti erindið Fjármál í heimsfaraldri: hvað getum við lært? og Ragnheiðar Jónu Ingimarsdóttur, sveitarstjóra Húnaþings vestra, sem flutti erindið Heimsfaraldur í heimabyggð. Eins og gefur að skilja voru verkefni þeirra afar ólík þar sem annað þeirra stýrir fjölmennasta þéttbýliskjarna landsins en hitt sveitarfélagi sem spannar 2.600 ferkílómetra með 1220 íbúa með helming íbúa í dreifbýli þar sem allir íbúar lentu í sóttkví um tíma. Í máli þeirra beggja kemur fram að þótt faraldurinn hafi skapað alvarlega stöðu í sveitarfélögunum sé lærdómurinn af mótvægisaðgerðunum afar verðmætur.
Mikið högg á rekstur borgarsjóðs
Dagur sagði að faraldurinn hefði verið umtalsvert högg á rekstur A-hluta borgarsjóðs. Niðurstaðan væri sú að rekstrarniðurstaða væri neikvæð um -5,8 ma.kr. eða 4,5% af tekjum. Tekjur væru undir áætlun en útgjöld yfir. Fjölgun hefði orðið í hópi þess fólks sem þarf á sérstakri fjárhagsaðstoð að halda og sérstakan húsnæðisstuðning.
Borgin hefði í ljósi stöðunnar skerpt fókus á fjármál og þess hefði verið gætt að öll skref í stöðunni hefðu verið úthugsuð og undirbúin með greiningum og áhættumati. Þá hefðu skilvirk stjórntæki verið notuð til að byggja undir ákvarðanatöku; svo sem sviðsmyndagreiningar, stefnumörkun og langtímaáætlanir verið notaðar auk þess sem reglubundið mat var lagt á árangurinn.
Gagnrýnir viðbrögð ríkisins
Dagur var gagnrýnin á viðbrögð ríkisins gagnvart sveitarfélögunum í þeim vanda sem sem heimsfaraldurinn skapaði. Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi verið margvíslegar en komið seint og skorti plan, einkum í upphafi. Hann segir Norðurlönd, fjölda landa í Evrópu sem og Bandaríkin hafa farið í umfangsmiklar stuðningsaðgerðir við borgir og sveitarfélög vegna stöðunnar. Honum hafi þó þótt skorta á skilning ríkisstjórnarinnar á mikilvægi þess að sveitarfélögin gætu fjárfest í faraldrinum. „Fyrir vikið varð viðbragð sveitarfélaganna ósamstíga og veikara en hefði getað orðið,“ sagði Dagur.
Græna planið gegn áhrifum COVID
Borgin hefði ákveðið að bregðast við við stöðunni með því að setja af stað sóknaráætlun gegn efnahagssamdrætti og atvinnuleysi vegna COVID. Sóknaráætlunin hefur verið kölluð Græna planið, en Dagur segir lykilvíddir græna plansins þrjár; efnahagslega, samfélagslega og umhverfislega en sjálfbærni náist ekki nema tillit sé tekið til allra þriggja þátta. Í því felist meðal annars hörðun á orkuskiptum, grænum samgöngum og stafrænni umbreytingu í þjónustu. Með aðgerðunum hafi verið staðið vörðið um störf, ný störf sköpuð og skref til betra samfélags verið tekin. Því megi með sanni segja að áhrif heimsfaraldursins hafi orðið hvati til góðra og verka í borginni.
„Erfið staða sveitarfélaga pólitísk ákvörðun“
„Samdráttur og erfið staða sveitarfélaga framundan var og er pólitísk ákvörðun. Við ættum að reyna að vaxa út úr vandanum en ekki spara okkur út úr honum,“ sagði Dagur. Sagði hann að tekjustofnar ríkisins muni hlífa ríkinu við niðurskurði vegna uppsveiflu. Þá stöðu búi sveitarfélög ekki við. Krónískur fjárfestingaskorti hjá sveitarfélögum sem geti orðið til þess að viðhald og innviðauppbygging situr á hakanum. OECD, Efnahags- og framfarastofnunin, hafi þó varað sérstaklega við því að litið sé á fjárfestingar sveitarfélaga sem afgangsstærð.
Allir íbúar sveitarfélagsins í úrvinnslusóttkví í Húnaþingi vestra
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, glímdi við mjög sérstakar aðstæður þar sem víðtækt smit varð í sveitarfélaginu snemma í faraldrinum. Tímalínan hafi verið þannig:
- 17. mars 2020 var fyrsta smitið greint í sveitarfélaginu.
- 18. mars 2020 voru allir nemendur og starfsfólk Grunnskóla Húnaþings vestra settir í sóttkví alls 230 manns eða 20% íbúa sveitarfélagsins. Til að setja fjöldann í samhengi benti hún á að það væri álíka og 26 þúsund manns í Reykjavík hefðu lent í sóttkví.
- 21. mars 2020 var tilkynnt um að allir íbúar sveitarfélagsins yrðu látnir sæta úrvinnslusóttkví.
Gætt að lífsnauðsynlegri þjónustu
Slíkt hefði tekið mikið á enda faraldurinn nýr á þessum tíma og lítið fræðsluefni til um viðbrögð. Einnig flækti það málin að erfitt var að ná til hluta íbúa svæðisins í gegnum tölvu og tækni auk þess sem stór hluti íbúa var af erlendum uppruna, meðal annars hafði nýlega verið tekið á móti kvótaflóttafólki sem sérstaklega þurfti að huga að. Því þurfti allar tilkynningar að vera á þremur tungumálum. Aðstæður voru því mjög krefjandi, hvað þá fyrir jafn lítið sveitarfélag og Húnaþing vestra.
Vettvangsstjórn fundaði oft á dag og gat tryggt að lífsnauðsynleg þjónusta hafi haldist.
Lærdómurinn af faraldrinum þétti samfélagið
Vissulega varð kostnaður vegna stöðunnar talsverður en lærdómurinn vegna ástandsins er líka dýrmætur og upplýsingaflæðið innan sveitarfélagsins, milli stjórnenda þess, innan sviða, vinnustaða og til íbúa hefur þróast mjög. Í raun mætti segja að COVID hefði á endanum þétt samfélagið.