Húsnæðisþing fór fram á Hilton Reykjavík Nordica í vikunni. Yfirskrift þingsins var Heimili handa hálfri milljón.
Þinginu var skipt í þrjá hluta: I. hluti – Ný húsnæðisstefna, II. hluti – Staða og horfur á húsnæðismarkaði og III. hluti – Breytt umgjörð mannvirkjagerðar. Meðal álitsgjafa var Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar sambandsins, en fulltrúar frá sveitarfélögum tóku einnig þátt og voru með erindi og álit.
Þurfum að búa til gott samfélag
Í umræðum fagnaði Heiða B. Hilmisdóttir fram kominni stefnu í húsnæðismálum enda væri hún að mestu í samræmi við áherslur sambandsins og samstarfssamning ráðuneytisins og sambandsins í húsnæðismálum. Mikilvægast nú væri að ná tökum á efnahagsástandinu þar sem hátt vaxtastig væri augljóslega veruleg hindrun í því að ná markmiðum um íbúðauppbyggingu.
Heiða ræddi einnig um mikilvægi þess að bjóða upp á fjölbreytta valkosti í húsnæðismálum um allt land svo að fólk hefði raunverulegt val um búsetu. Mikilvægt væri þó að hafa í huga að sveitarfélög eru ekki bara að úthluta lóðum heldur bera þau ábyrgð á að búa til gott samfélag og að samfélagið séu staðirnir þar sem fólkið hittist, torgin, búðirnar, göngustígar og öll þjónustan sem þarf að fylgja svo sem skólar og íþróttamannvirki. Það sé því nauðsynlegt að horfa á heildarmyndina ekki bara hversu margar lóðir og hversu margar íbúðir við þurfum.
Húsnæðismál stærsta velferðarmál íslensku þjóðarinnar
Meðal frummælenda í fyrsta hluta var Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyriarbæjar. Í erindi sínu, sem nefndist Hvað þurfa sveitarfélög í vexti? sagði Ásthildur m.a. að vöxtur Akureyrarbæjar væri vaxtarhvati fyrir sveitarfélög í nágrenni Akureyrar. En forsenda fyrir góðri og farsælli þróun sveitarfélaga fyrst og fremst gott aðalskipulag og vel uppfærð húsnæðisáætlun.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, og Einar Þorsteinsson formaður borgarráðs voru meðal álitsgjafa. Ásdís lagði áherslu á að bæta þyrfti úr skorti á húsnæði og sagði að byggja þyrfti hraðar og meira á sem hagkvæmastan máta án þess þó að það komi niður á gæðum.
Einar sagði að húsnæðismál væri stærsta velferðarmál íslensku þjóðarinnar. Mikilvægt er að einfalda ferla í húsnæðismálum og auka skilvirkni. Mikilvægt er að samræma tímalínu skipulagsferils og byggingaferils þannig að ferlið allt taki styttri tíma. Þar er grundvallaratriði að ríki og sveitarfélög séu með sameiginlega sýn og stefnu þegar kemur að húsnæðismálum.