Heimild til frestunar greiðslu fasteignagjalda

Í gær, 30. mars, var samþykkt á Alþingi bráðabirgðaákvæði við lög um tekjustofna sveitarfélaga er heimilar gjaldendum fasteignaskatta í C-flokki (atvinnuhúsnæði), sem eiga við tímabundna rekstrarörðugleika að stríða vegna tekjufalls, að óska eftir frestun á allt að þremur greiðslum fasteignaskatts sem eru á gjalddaga 1. apríl 2020 til og með 1. desember 2020. Gjalddagi og eindagi greiðslna sem frestun tekur til er 15. janúar 2021.

 

Í gær, 30. mars, var samþykkt á Alþingi bráðabirgðaákvæði við lög um tekjustofna sveitarfélaga er heimilar gjaldendum fasteignaskatta í C-flokki (atvinnuhúsnæði), sem eiga við tímabundna rekstrarörðugleika að stríða vegna tekjufalls, að óska eftir frestun á allt að þremur greiðslum fasteignaskatts sem eru á gjalddaga 1. apríl 2020 til og með 1. desember 2020. Gjalddagi og eindagi greiðslna sem frestun tekur til er 15. janúar 2021.

Skilyrði fyrir frestun eru meðal annars:

  • Skyndilegt og ófyrirséð tekjufall sem leiðir af almennum samdrætti innanlands og á heimsvísu.
  • Að aðilar séu ekki í vanskilum á opinberum gjöldum, sköttum og öðrum greiðslum til sveitarfélagsins.
  • Aðrar útilokunarástæður er koma fram í greinargerð.

Atriði er geta útilokað fyrirtæki frá fresti

  • Ef arði er úthlutað eða eigin hlutir keyptir á árinu 2020 eða úttekt eiganda innan ársins 2020 fer umfram reiknað endurgjald þeirra er heimilt að synja umsókn um frestun gjalda.
  • Ef skilyrði fyrir frestun eru ekki uppfyllt.

Verði gjaldandi, sem frestað hefur greiðslum til 15. janúar 2021, fyrir miklu tekjufalli á rekstrarárinu 2020 samanborið við fyrri rekstrarár getur hann óskað eftir auknum fresti og dreifingu þessara greiðslna fram til 15. dags mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021.

Samband íslenskra sveitarfélaga vinnur að gerð leiðbeininga fyrir sveitarfélög um hvernig hægt er að koma ofangreindu bráðabirgðaákvæði í framkvæmd ásamt viðmiðum við mat umsókna.