Heildarstefna í úrgangsmálum komin út

Ný heildarstefna umhverfis- og auðlindaráðherra í úrgangsmálum Í átt að hringrásarhagkerfi var gefin út í dag. Stefnan styður við myndun hringrásarhagkerfis á Íslandi og er lykilaðgerð í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá úrgangi.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Aldís Hafsteinsdóttir, formaður sambands, ásamt fríðu föruneyti frá sambandinu og ráðuneytinu. Þarna má m.a. sjá Eygerði Margrétardóttur verkefnasstjóra í umhverfismálum og Karl Björnsson, framkvæmdastjóra sambandsins.

Stefnunni er ætlað að stuðla að minni sóun verðmæta og því að gera Ísland að endurvinnslusamfélagi þar sem urðun verðmæta heyrir sögunni til.

Heildarstefnan sem gefin var út í dag skiptist í tvo meginhluta, stefnu um úrgangsforvarnir, sem ber heitið Saman gegn sóun, og stefnu um meðhöndlun úrgangs. Stefnan um úrgangsforvarnir, sem kom út árið 2016 og gildir til 2027 miðar að því að koma í veg fyrir myndun úrgangs. Það er að hlutir og efni verði að úrgangi og er það til að mynda gert með aukinni nýtni, nægjusemi og minni sóun.

Hinn hluti heildarstefnunnar; stefna um meðhöndlun úrgangs, er nýr og kemur í stað Landsáætlunar um meðhöndlun úrgangs 2013-2024. Hann gegnir veigamiklu hlutverki við innleiðingu hringrásarhagkerfis hérlendis og hefur þrjú meginmarkmið; að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs, að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu og að úrgangur sé meðhöndlaður á þann hátt að hann skapi ekki hættu fyrir menn eða dýr eða valdi skaða í umhverfinu.

Við undirbúning stefnunnar Í átt að hringrásarhagkerfi á undanförnum tveimur árumhefur verið haft samráð við fjölmarga aðila. Má þar nefna Umhverfisstofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga, en sveitarfélög eru lykilaðilar við framkvæmd úrgangsmála á landsvísu.

„Sveitarstjórnir gegna lykilhlutverki í stjórnsýslu úrgangsmála.  Því fögnum við því að hér sé komin skýr, raunhæf og heildstæð stefna í úrgangsmálum.  Stefna sem unnin er í góðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Við treystum á gott samstarf til framtíðar svo innleiðing stefnunnar verði farsæl í þessum viðamikla málaflokki,“

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Til að fylgja eftir útgáfu stefnunnar mun ráðherra skipa stýrihóp ríkis, sveitarfélaga, atvinnulífs, frjálsra félagasamtaka og annarra mögulegra haghafa. Hópnum verður m.a. falið að fylgja eftir framkvæmd stefnunnar og beita sér fyrir því að aðgerðum miði áfram.

Guðmundur Ingi og Aldís með stefnuna góðu. Ljósm.: Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.