Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur sett til kynningar í Samráðsgátt frumvarp um heildarlög um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Frumvarpið er byggt á tillögu starfshóps um heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum. Meginmarkmið endurskoðunarinnar er að auka skilvirkni í málsmeðferð og tryggja sem best aðkomu almennings og annarra hagsmunaaðila að ferlinu í samræmi við markmið Árósasamningsins.
Með aukinn skýrleika að leiðarljósi er með frumvarpinu lagt til að lög um mat á umhverfisáhrifum og lög um umhverfismat áætlana verði sameinuð í eina löggjöf. Einnig er leitast við að bæta framsetningu laganna og gera þau skýrari, m.a. með því að færa hluta þeirra í reglugerð.
Í frumvarpinu er lögð til einfaldari málsmeðferð við umhverfismat framkvæmda þar sem fallið er frá tvöföldu samráði, þ.e. samráði á vegum framkvæmdaaðila annars vegar og Skipulagsstofnunar hins vegar. Þá er lagt til að framkvæmdaaðili leggi fram eina umhverfismatsskýrslu í stað frummatsskýrslu og matsskýrslu. Gert er ráð fyrir möguleika á forsamráði framkvæmdaaðila, leyfisveitenda og Skipulagsstofnunar í þeim tilgangi að auka gæði og skilvirkni verkefnisins og er lagt til að kynningar og samráð um umhverfismat fari fram í gegnum landfræðilega samráðs- og upplýsingagátt.
Þá er gert ráð fyrir að heildarferli umhverfismats styttist frá því sem nú er, en þó er lagður til rýmri tímafrestur vegna málsmeðferðar en eru í núgildandi lögum. Þá er lagt til að framkvæmdaflokkum verði fækkað úr þremur í tvo og verða framkvæmdir í flokki A ávallt háðar umhverfismati. Framkvæmdir í flokki B eru hins vegar háðar umhverfismati, ef talið er líklegt að þær hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.
Umsögnum um frumvarpsdrögin skal skilað í Samráðsgátt Stjórnarráðsins eigi síðar en 23. febrúar næstkomandi.
Drög að frumvarpi til laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana
Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs, var fulltrúi sambandsins í starfshópnum og er tilbúinn til að veita frekari upplýsingar um málið .