Hamingja, heilsa og vellíðan með heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna var yfirskrift málþings sem haldið var í tilefni af alþjóðlega hamingjudeginum í gær. Heilsueflandi starf sveitarfélaga út frá heimsmarkmiðunum og hamingja landsmanna eftir sveitarfélögum var á meðal annars á dagskrá málþingsins.
Hamingja, heilsa og vellíðan með heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna var yfirskrift málþings sem haldið var í tilefni af alþjóðlega hamingjudeginum í gær. Heilsueflandi starf sveitarfélaga út frá heimsmarkmiðunum og hamingja landsmanna eftir sveitarfélögum var á meðal annars á dagskrá málþingsins.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, reið á vaðið fyrir hönd heilsueflandi sveitarfélaga og greindi m.a. frá metnaðarfullu starfi borgarinnar að loftslagsáætlun. Alls tóku þrjú aðildarsveitarfélög þátt í málþinginu og voru fulltrúar hinna tveggja Ellert Örn Erlingsson, deildarstjóri hjá Akureyrarbæ og Hulda Sólveig Jóhannsdóttir, sem á sæti í stýrihópi Hafnarfjarðabæjar um heilsueflandi samfélag.
Var í senn áhugavert og fróðlegt að sjá hversu vel heilsueflandi samfélög virðast falla að heimsmarkmiðunum og þeirri samhæfðu nálgun sem Sameinuðu þjóðirnar byggja þar nálgun sína á.
Erlendir fyrirlesarar voru Dr. Kai Ruggeri, forstöðumaður stjórnstefnurannsókna við Cambridge háskólann og Fredrik Lindencrona, verkefnisstjóri hjá sambandi sænskra sveitarfélaga.
Í erindi sínu greindi Lindencrona hvernig heildstæð nálgun, eins og sú sem Sameinuðu þjóðirnar nota fyrir heimsmarkmiðin, hefur nýst sænskum stjórnvöldum til að ná betri árangri í geðheilbrigðisþjónustu þvert á mörk stjórnsýslueininga, en geðheilbrigðisþjónusta er sú tegund heilbrigðisþjónustu sem vex hlutfallslega hraðast í iðnríkjunum.
Þá vakti ekki síður athygli málþingsgesta, erindi sem Dr. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri hjá Embætti landlæknis, flutti um hamingju og vellíðan í íslenskum sveitarfélögum. Var þetta jafnframt í fyrsta sinn sem niðurstöður eru birtar úr hamingjumælingum embættisins eftir sveitarfélögum.
Hamingja er einn af þeim áhrifaþáttum sem lýðheilsuvísar landlæknis eru byggðir á og eru hamingjumælingar því hluti af reglubundnum könnunum embættisins á heilsu og líðan fólks. Hafa lýðheilsuvísar verið gefnir út fyrir hvert heilbrigðisumdæmi og er þeim ætlað að auðvelda sveitarfélögum og heilbrigðisstofnunum að greina stöðu hvers svæðis m.t.t. styrkleika og veikleika og skilja betur þarfir íbúa á hverjum stað.
Á meðal þeirra sveitarfélaga, sem voru í efri lögum hamingjunnar, voru Snæfellsbær, Garðabær, Seltjarnarnes, Ísafjörður, Fjarðabyggð og Árborg, en hafa verður einhvern fyrirvara á dreifingu niðurstaðna eftir sveitarfélögum, þar sem hlutfallslega fá svör geta verið á bak við einstakar tölur.
Málþingið fór fram í hátíðarsal Háskóla Íslands og var skipulagt af Embætti landlæknis í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, forsætisráðuneytið, Félag Sameinuðu þjóðanna og Endurmenntun Háskóla Íslands.
Ljósm. Ellert Örn hjá Akureyrarbæ í pontu í hátíðarsal Háskóla Íslands.