Hack the crisis Iceland – lausnir á áskorunum vegna COVID-19

Almenningur og frumkvöðlar taka höndum saman um að finna lausnir á áskorunum heilbrigðiskerfisins tengdum COVID-19 á „Hack the crisis Iceland“ hakkaþoninu dagana 22.-24 maí næstkomandi.

Almenningur og frumkvöðlar taka höndum saman um að finna lausnir á áskorunum heilbrigðiskerfisins tengdum COVID-19 á „Hack the crisis Iceland“ hakkaþoninu dagana 22.-24 maí næstkomandi.

Undanfarnar vikur hafa sýnt fram á brýna nauðsyn slíkra lausna og hefur íslenskt heilbrigðiskerfi nýtt sér fjölmargar lausnir í erfiðum aðstæðum til að veita betri þjónustu til sjúklinga og aðstandenda.

Hakkaþonið undir formerkjum „Hack the crisis Iceland“ er liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að auka nýsköpun í heilbrigðisþjónustu. Hakkaþoninu er stýrt af Reboot Hack og Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samvinnu við Verkefnastofu um stafrænt Ísland, Stjórnarráð Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og fleiri aðila.

Vefsíða mótsins var formlega opnuð í dag og eru aðilar í heilbrigðisþjónustu sem og almenningur hvattir til að kynna sér hakkaþonið og taka þátt.

En hvað er hakkaþon?

Hakkaþon er nýsköpunarkeppni þar sem þverfagleg teymi vinna saman í afmarkaðan tíma við að finna lausnir á raunverulegum áskorunum sem lagðar eru fram. Teymunum býðst einnig að fá ráðgjöf frá sérhæfðum leiðbeinendum sem hjálpa þeim í gegnum ferlið. Allir geta því tekið þátt og krefst það engrar ákveðinnar kunnáttu né tækni.
Sambærilegar keppnir og hakkaþon hafa verið haldin víða um Evrópu í kjölfar COVID faraldursins og reynst mjög góð leið til þess að hvetja til nýsköpunar á sama tíma og raunverulegum áskorunum er mætt.

Aðrar áskoranir á mótinu verða velferðar- og menntamál og framtíðaráskoranir.

Á komandi vikum verður fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar vegna nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu kynnt nánar en hér er fyrsti fasi þess verkefnis formlega settur af stað.