Grunnskólinn hjá sveitarfélögum í 25 ár: Ávinningar og áskoranir   

Samband íslenskra sveitarfélaga vekur athygli á ítarlegri grein sem nýlega birtist í Skólaþráðum, tímariti Samtaka áhugfólks um skólaþróun um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna.

Greinin ber heitið „Grunnskólinn hjá sveitarfélögum í 25 ár: Ávinningar og áskoranir“, höfundar eru Anna Kristín Sigurðardóttir, Börkur Hansen, Gerður G. Óskarsdóttir, Ingvar Sigurgeirsson, Sigríður Margrét Sigurðardóttir og Þorsteinn Sæberg, en þau hafa öll komið að þessum málum með einum eða öðrum hætti.

Smelltu hér til að lesa greinina.

Í greininni er leitast við að meta þróun grunnskólans sl. 25 ár og sjónum annars vegar beint að umgjörð skólastarfsins, þ.m.t. húsnæði, fjármálum, starfsmannahaldi og mannauðsráðgjöf, og hins vegar að innra starfi, þ.e. kennsluháttum, starfsþróun og stuðningi skólaþjónustu. Spurt er um ávinninga af yfirfærslunni, hvað mætti betur fara og loks hvort gengið hafi verið of langt í einhverjum þáttum í dreifstýringunni eða of skammt. Byggt er á reynslu og  niðurstöðum rannsókna og felst nýnæmi í að horft er heildstætt á niðurstöður margra innlendra rannsókna.  

Niðurstöður benda til að talsverður ávinningur hafi orðið  hvað varðar ýmsa ytri þætti, s.s. í hönnun og skipulagi skólahúsnæðis, viðmiðum við úthlutun fjár til grunnskóla og fjölgun starfsmanna skólanna, auk reksturs skólamötuneyta og frístundaheimila. Annað virðist eiga við um innra starf skólanna og stuðning sveitarfélaga við daglegt skólastarf og símenntun. Ekkert heildarskipulag er í landinu á skólaþjónustu og sveitarfélög mörg hver vart fær um að reka heildstæða og framsækna þjónustu við skóla. Stuðningur við einstaka nemendur snýr einkum að greiningum, en lítil áhersla á eftirfylgd og stuðning við kennara á vettvangi. Starfsþróun kennara, skólastjórnenda og annarra starfsmanna skóla er handahófskennd og yfirlit yfir símenntun takmörkuð. Á sviði stuðnings og símenntunar hefur dreifstýringin að öllum líkindum gengið of langt og að nemendur og starfsmenn  sitji ekki við sama borð. Þar eru áskoranir sem bíða úrlausnar.