Grípa verður til aðgerða strax

Tillögur samráðshóps Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Sambands íslenskra sveitarfélaga um aðgerðir til að auka nýliðun meðal kennara liggja nú fyrir. Merk tímamót, sem marka nýtt upphaf að sögn Halldórs Halldórssonar, formanns sambandsins. Aðgerðir að hálfu stjórnvalda verða kynntar í júní.

HH_Rsjv_16022018Tillögur samráðshóps Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Sambands íslenskra sveitarfélaga um aðgerðir til að auka nýliðun meðal kennara liggja nú fyrir. Merk tímamót, sem marka nýtt upphaf að sögn Halldórs Halldórssonar, formanns sambandsins. Aðgerðir að hálfu stjórnvalda verða kynntar í júní.

Tillögur samráðshópsins, sem miða bæði að því að fjölga kennurum og sporna gegn brotthvarfi kennara úr starfi, voru kynntar á fundi sem boðað var til 16. febrúar sl. með þremur ráðherrum eða ráðherrum menntamála, sveitarstjórnarmála og fjármála.

Áður hafði Kennarasamband Íslands fengið tillögurnar til
umsagnar og voru ábendingar þess hafðar til hliðsjónar við endanlega gerð
tillagnanna. Í umsögn kennarasambandsins segir að tillögur og greinargerð samráðshópsins nái á heildina litið vel utan um nýliðunarvandann í kennarastétt í leikskólum og grunnskólum.

Að mati samráðshópsins undirstrikar viðvarandi skortur á leikskólakennurum og fyrirsjáanlegur skortur á grunnskólakennurum nauðsyn þess, að gripið verði til aðgerða strax. Jafnframt ríki samhljómur á milli ríkis, sveitarfélaga, menntastofnana kennara og Kennarasambands Íslands um alvarleika málsins og sameiginlegur vilji til aðgerða sé til staðar. 

Tillögurnar eru efniviður fyrir aðgerðir stjórnvalda á
vettvangi ríkis og sveitarfélaga og kennaramenntunarstofnana. Þær eru tæplega
30 talsins og hafa verið flokkaðar í sex mismunandi aðgerðaflokka. Á meðal þess
sem lagt er til má nefna, að styrkir komi til viðbótar eða í stað námslána í
kennaranámi, að námslán eða styrkir verði veittir á móti launum sveitarfélags á
starfsnámsári, að samið verði við starfsfólk skóla um nám á starfstíma, að
kennaranám verði þrepaskipt og veiti skilgreind starfsréttindi og ábyrgð í
áföngum og að kennarar fái þverfaglega stoðþjónustu til að sinna sértækum
þörfum nemenda.

Þá er einnig lagt til að stjórnmálamenn forgangsraði skóla- og fræðslumálum ofar en nú er gert og að markvisst samstarf takist um menntamál þvert á ráðuneyti og sveitarfélög, svo að dæmi séu nefnd. Tillögurnar má nálgast í heild sinni hér að neðan.

Tillögurnar fela í sér tímamót í skólamálum að sögn Halldórs Halldórssonar, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þá hefur Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, sagt að aðgerðir á vegum stjórnvalda verði að óbreyttu kynntar 1. júní nk. Fyrst verði allar þær tillögur sem fyrir liggi um lausnir á nýliðunarvanda í
kennarastéttum rýndar og kostnaðarmetnar (kvöldfréttir RÚV, 16.02.2018). Þess má geta að sú vinna er þegar hafin á vegum ráðuneytisins. 

Samráðshópurinn er formlegur samstarfsvettvangur Sambands íslenskra sveitarfélaga, Menntavísindasviðs Háskóli Íslands og
kennaradeildar og skólaþróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri um skólamál,
kennaramenntun og mótun framtíðarsýnar í þeim efnum.

Barnateikningar


(Ljósmynd: Halldór Halldórsson í fréttaviðtali á RÚV og www.netla.hi.is)