Grímsnes- og Grafningshreppur sveitarfélag ársins 2022

Grímsnes- og Grafningshreppur hlaut í dag útnefninguna „Sveitarfélag ársins 2022.“

Fulltrúar Flóahrepps, Hrunamannahrepps, Grímsnes- og Grafningshrepps og Bláskógabyggðar með viðurkenningar sínar. Ljósm.: Margrét Sigurðardóttir

Veitt var viðurkenning fyrir bestu heildarniðurstöðu þátta sem stuðla að blómlegu og heilbrigðu starfsumhverfi starfsfólks sveitarfélaga.

Sveitarfélög á Suðurlandi skipuðu sér í fjögur efstu sætin en í öðru sæti varð Hrunamannahreppur, Flóahreppur varð í þriðja sæti og Bláskógabyggð í því fjórða.

Sveitarfélag ársins 2022 er samstarfsverkefni tíu stéttarfélaga bæjarstarfsmanna innan BSRB. Þau eru:

  • FOSA, félag opinberra starfsmanna á Austurlandi
  • FOSS, stéttarfélag í almannaþjónustu
  • Kjölur, stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu
  • Starfsmannafélag Garðabæjar
  • Starfsmannafélag Hafnarfjarðar
  • Starfsmannafélag Húsavíkur
  • Starfsmannafélag Kópavogs
  • Starfsmannafélag Mosfellsbæjar
  • Starfsmannafélag Suðurnesja
  • Starfsmannafélag Vestmannaeyja

Þau sveitarfélög sem verma fjögur efstu sætin fá sæmdarheitið Sveitarfélag ársins 2022. Hljóta þau einnig verðlaunagrip sem hannaður er og smíðaður af Sigrúnu Björgu Aradóttur hjá Agndofa hönnunarhúsi. Í verðlaunagripnum er kennimerki viðurkenningarinnar, níu blaða bóm sem vísar í þá þætti sem mynda saman blómlegt og heilbrigt starfsumhverfi hvers sveitarfélags.

Um könnunina

Könnunin „Sveitarfélag ársins“ hóf göngu  vorið 2022 og er stefnt að því að könnunin verði árlegur viðburður. Niðurstöður könnunarinnar veita afar mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi á vinnustöðum sveitarfélaganna og samanburð við aðra vinnustaði. Hægt er að bera saman niðurstöður þessarar könnunar við sambærilegar kannanir sem gerðar eru meðal ríkisstarfsmanna og á almennum markaði þar sem Sameyki og VR standa að gerð samskonar kannana.

Tilgangurinn með könnuninni er að hvetja stjórnendur sveitarfélaganna til að veita starfsumhverfinu meiri athygli og ráðast í umbótaverkefni þar sem þess er þörf. Einnig er ætlunin að niðurstöðurnar skapi almenna umræðu um starfsumhverfi og stjórnun á vinnustöðum félagsfólki stéttarfélaganna til hagsbóta. Ekki síst er tilgangurinn að veita góðum vinnustöðum viðurkenningu fyrir að hlúa vel að starfsfólki.

Framkvæmd könnunarinnar

Gögnum var safnað á tímabilinu apríl til júní 2022. Framkvæmd könnunarinnar var með þeim hætti að Gallup sendi út spurningalista samkvæmt félagsmannalista frá stéttarfélögunum tíu. Kynningarbréf um könnunina var einnig sent til forráðamanna sveitarfélaganna þar sem þeim var boðin þátttaka í henni og greiða sveitarfélögin að taka þátt. Tvö sveitarfélög, Grímsnes- og Grafningshreppur og Flóahreppur, þáðu boðið og fengu allt starfsfólk þeirra boð um þátttöku í könnuninni. Í lok úrvinnslu fengu sveitarfélögin síðan sendar niðurstöður úr könnuninni.

Fleiri sveitarfélög lýstu áhuga á að vera með í könnuninni og gætu tekið þátt í henni á næsta ári því áformað er að könnunin verði gerð árlega.

Alls voru tæplega 5.000 manns í heildarúrtaki bæjarstarfsmannafélaganna tíu en tæplega 4.700 í endanlegu úrtaki. Þar af voru tæplega 1.400 svör notuð í úrvinnslu eða tæp 30% af endanlegu úrtaki.

Spurningalisti var lagður fyrir starfsfólk á netinu. Mælingin náði yfir ólíka þætti en þannig fæst heilsteypt mynd af innra starfsumhverfi sveitarfélaganna.