Greinargerð um notendastýrða persónulega aðstoð á Norðurlöndum

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman greinargerð um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) á Norðurlöndum. Nauðsynlegt er að mati sambandsins að slík greinargerð liggi fyrir, en Alþingi hefur nú meðferðar frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir, sem felur í sér lögfestingu NPA sem þjónustuforms.

ImagesSamband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman greinargerð um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) á Norðurlöndum. Nauðsynlegt er að mati sambandsins að slík greinargerð liggi fyrir, en Alþingi hefur nú meðferðar frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir, sem felur í sér lögfestingu NPA sem þjónustuform.

Í greinargerðinni er samanburður við hin Norðurlöndin á þeim atriðum sem helst hafa verið í umræðunni hér á landi í tengslum við innleiðingu á þjónustunni. Má þar nefna sem dæmi þróun í fjölda samninga og útgjöldum, takmarkanir á því hverjir eigi tilkall til þjónustunnar og fyrirkomulag á ráðningu aðstoðarmanna.

Einnig kemur glöggt fram, hve miklu máli skiptir hverju sinni hvers konar skilyrði eru sett fyrir NPA og hvernig staðið er að mati á stuðningsþörf. Út frá reynslu nágrannaþjóða eru eftirfarandi ályktanir dregnar um mögulega þróun hérlendis í kjölfar lögfestingar:  

  • Miðað við að áfram verði stuðst við „víða“ innleiðingu á þessu þjónustuformi og að mat á stuðningsþörf verði að mestu leyti með óbreyttu sniði má ætla, að fjöldi íslenskra NPA-notenda verði hlutfallslega mun meiri hér á landi en í Danmörku og nær því sem er í Noregi.
  • Kostnaðarmat með fyrirliggjandi frumvarpi gerir ráð fyrir að NPA-notendur verði 172 talsins árið 2022 (eða fyrr). Þetta setur Ísland nokkurn veginn miðja vegu á milli Danmerkur og Noregs, en töluvert langt undir því sem er í Svíþjóð og sérstaklega Finnlandi. Ætla má að um mjög varfærna nálgun sé að ræða og að yfir lengra árabil kunni fjöldi samninga hérlendis að nálgast það hlutfall sem verið hefur í Svíþjóð. Verði engin efri aldursmörk (með hærri aldri) má ætla að það leiði til mikillar fjölgunar á NPA-notendum og að staðan stefni þar með í svipaða átt og hjá Finnum. Mörk varðandi lágmarks- og hámarksumfang NPA geta þó haft hér áhrif, því ljóst er að fjöldi samninga í Finnlandi ræðst mjög af því að slík mörk eru ekki fyrir hendi.
  • Innleiðingin hefur fram að þessu miðast við, að NPA gangi langt í að mæta stuðningsþörfum notanda. Kostnaðarþróun pr. samning verður því líklega á svipuðu róli og í Svíþjóð, sem gengur af öllum Norðurlöndunum hvað lengst fram í þessu efni. Í kostnaðarmati frumvarpsins er gert ráð fyrir því, að þegar NPA-samningar verða orðnir 172 talsins árið 2022 (eða fyrr), verði meðalkostnaður pr. samning 13,3 m.kr. Er þar um lækkun að ræða frá núverandi stöðu, þar sem kostnaður á hvern NPA-samning nemur að meðaltali 14,2 m.kr.
  • Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gert athugasemd við að meðalfjárhæð NPA-samninga lækki í fyrirliggjandi kostnaðarmati fram til ársins 2022 (eða fyrr). Forsenda þessarar lækkunar er meint hagræðing sem ríkið telur að sveitarfélög muni ná fram við gerð NPA-samninga. Sambandið fellst ekki á þessa forsendu og telur þvert á móti, að meðalfjárhæð NPA-samninga muni hækka samhliða því að gerðir verða nýir samningar og ná þannig svipuðu meðaltali og er í Svíþjóð eða 16,0 – 16,5 m.kr. hver samningur á ársgrundvelli.

Greinargerðinni hefur verið skilað til velferðarnefndar Alþingis.

Þess má svo geta, að sambandið hefur áður tekið saman gögn frá hinum Norðurlöndunum og birt í greinargerð Gunnlaugs A. Júlíussonar, þáverandi sviðsstjóra hag- og upplýsingasviðs, um  notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) í Svíþjóð og Noregi út frá fjármálalegum forsendum (desember 2012).