Upplýsingar um greiðslur Úrvinnslusjóðs til sveitarfélaga vegna sérstakrar söfnunar

Úrvinnslusjóður hefur sent sveitarfélögum upplýsingar um að greiðslur til þeirra vegna sérstakrar söfnunar hafa tafist. Sjóðnum hefur ekki reynst unnt að gera upp við sveitarfélög vegna sérstakrar söfnunar fyrir tímabilið janúar til mars í apríl eins og áætlað hafði verið.

Skilagreinar þjónustuaðila Úrvinnslusjóðs, sem eru forsenda greiðslna til sveitarfélaga, berast síðar en reiknað var með. Auk þess sem þær eru ítarlegri og vinnsla þeirra í upphafi tók lengri tíma en gert var ráð fyrir. Enn fremur er unnið að útfærslu greiðslufyrirkomulags.

Stefnt er að því að greiðslur verði millifærðar beint á sveitarfélög, með því að Úrvinnslusjóður sendi greiðslubeiðni til Fjársýslunnar sem síðan sér um að greiða sveitarfélögunum. Þetta er sama greiðslufyrirkomulag og greiðslur til sveitarfélaga vegna móttöku og hreinsunar ökutækja. Þannig þurfa sveitarfélögin ekki að senda reikning til sjóðsins vegna sérstakrar söfnunar.

Upplýsingar um greiðslur Úrvinnslusjóðs til sveitarfélaga vegna sérstakrar söfnunar

Inngangur

Sérstök söfnun er skilgreind sem söfnun þar sem úrgangsflokkum er haldið aðskildum eftir tegund og eðli til að auðvelda tiltekna meðhöndlun, svo sem undirbúning fyrir endurnotkun eða endurvinnslu. Koma skal upp sérstakri söfnun á heimilisúrgangi þar sem það er nauðsynlegt til að uppfylla skilyrði þess að úrgangur sé endurnýttur í samræmi við forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs. Jafnframt til að koma í veg fyrir að úrgangur blandist öðrum úrgangi eða öðrum efniviði með aðra eiginleika. Sérstök söfnun skal vera á a.m.k. eftirfarandi úrgangstegundum: pappír og pappa, málmum, plasti, gleri, lífúrgangi, textíl og spilliefnum.

Sérstök söfnun á pappír og pappa, plasti og lífúrgangi skal fara fram á sem aðgengilegastan hátt við íbúðarhús og hjá lögaðilum í þéttbýli. Söfnunin skal fara fram innan lóðar viðkomandi íbúðarhúss eða lögaðila. Þó er heimilt að hafa sameiginlega söfnun úrgangs fyrir aðliggjandi lóðir að því tilskildu að öll söfnun úrgangs færist af viðkomandi lóðum Sérstök söfnun á spilliefnum skal fara fram í nærumhverfi íbúa.

Úrvinnslusjóður greiðir til sveitarfélaga vegna sérstakrar söfnunar frá og með 1. janúar 2023. Greiðslan byggir  á upplýsingum úr skilagreinum þjónustuaðila, sjá nánar á vefsíðu sjóðsins um fyrirkomulag og gjaldskrá.  https://www.urvinnslusjodur.is/voruflokkar/serstok-sofnun/m.a.

Tafir á greiðslum til sveitarfélaga

Ekki reyndist unnt að gera upp við sveitarfélög fyrir tímabilið janúar til mars 2023 í apríl eins og áætlað hafði verið. Skilagreinar berast síðar en reiknað var með og auk þess sem þær eru ítarlegri og vinnsla þeirra í upphafi tók lengri tíma en gert var ráð fyrir. Enn fremur er unnið að útfærslu greiðslufyrirkomulags. Stefnt er að því að greiðslur verði millifærðar beint á sveitarfélög, með því að Úrvinnslusjóður sendi greiðslubeiðni til Fjársýslunnar sem síðan sér um að greiða sveitarfélögunum. Þetta er sama greiðslufyrirkomulag og greiðslur til sveitarfélaga vegna móttöku og hreinsunar ökutækja. Þannig þurfa sveitarfélögin ekki að senda reikning til sjóðsins vegna sérstakrar söfnunar.

Fyrirkomulag

Þjónustuaðilar með samning við sveitarfélög sjá um sérstaka söfnun á umbúðum sem lagt er á úrvinnslugjald. Þjónustuaðilar skila upplýsingum um söfnunina í skilagreinum til Úrvinnslusjóðs. Um er að ræða söfnun við heimahús á umbúðum úr pappa og plasti. Söfnun á umbúðum úr pappa, plasti, gleri og málmi úr grenndargámum og söfnun umbúða úr pappa, plasti, gleri, málmi og viði á söfnunarstöðvum. Tímabundið greiðir Úrvinnslusjóður fyrir samsöfnun á umbúðum úr pappa og plasti, en skv. lögum ber að safna þessum úrgangsstraumum aðskildum, þ.e. pappa og plasti. Umbúðir úr gleri, málmi og viði eru nýir vöruflokkar sem bera úrvinnslugjald.

Þjónustuaðilar gera skilagrein um söfnun og ráðstöfun í lok hvers mánaðar og skila til Úrvinnslusjóðs Skilagreinar eru lesnar inn í gagnagrunn sjóðsins. Mikilvægt er að skilagreinarnar séu rétt út fylltar. Í þeim þarf að vera skráð póstnúmer þess svæðis sem verið er að hirða, magn og hvort uppruni efnisins er við heimili, úr grenndargámi eða af söfnunarstöð. Jafnframt þarf að skrá sveitarfélagið sem ílátið stendur í til að tryggja að greiðslur berist til réttra aðila. Mikilvægt er að sveitarfélögin hvetji sína þjónustuaðila til að skila inn skilagreinum mánaðarlega. Birt verða yfirlit yfir söfnun hvers sveitarfélags á heimasíðu sjóðsins.

Í þeim tilvikum þar sem safnað er blöndu af úrvinnslugjaldsskyldum úrgangi og úrgangi sem ekki ber úrvinnslugjald, t.d. pappaumbúðum annars vegar og pappír og dagblöðum hins vegar er innihaldi í söfnunaríláti skipt upp eftir hlutfalli skv. úrtakskönnun. Úrvinnslusjóður greiðir eingöngu fyrir þann hluta úrgangsins í söfnunartunnum og gámum sem tilheyrir sjóðnum og rekja má til vöruflokka sem bera úrvinnslugjald. Sama á við um plastumbúðir og annað plast.

Starfshópur

Skipaður var starfshópur með fulltrúum frá sveitarfélögum, framleiðendum sem bera framleiðendaábyrgð og Úrvinnslusjóði. Verkefni starfshópsins er tvíþætt. Annars vegar að skipuleggja og halda utan um úttektir á innihaldi söfnunaríláta sem varða greiðslur úr Úrvinnslusjóði og hin vegar fara yfir gögn um raunkostnað við sérstaka söfnun og gera stjórn Úrvinnslusjóðs grein fyrir niðurstöðum og gera tillögur um breytingar eftir atvikum til stjórnar Úrvinnslusjóðs. Starfshópurinn mun skipuleggja úttektir í samráði við úttektaraðila. Einnig mun starfshópurinn fara yfir og meta raunkostnað við sérstaka söfnun og bera saman við gjaldskrá Úrvinnslusjóðs. Gunnar Bragason, ráðgjafi, starfar með starfshópnum.

Frekari upplýsingar

Úrvinnslusjóður mun upplýsa nánar um útgreiðslur til sveitarfélaga þegar endanleg útfærsla á greiðslufyrirkomulagi liggur fyrir.  Frekari upplýsingar veita Gunnlaug Einarsdóttir og  Íris Gunnarsdóttir hjá Úrvinnslusjóði, í síma 660 4706 og á netfanginu gunnlaug@urvinnslusjodur.is eða iris@urvinnslusjodur.is.