Grænbók um skipulagsmál og hvítbók um húsnæðismál í Samráðsgátt

Athygli sveitarfélaga er vakin á því að í samráðsgátt liggja nú frammi annars vegar Grænbók um skipulagsmál og hins vegar Hvítbók um húsnæðismál.

Mynd af vef Innviðaráðuneytisins
Mynd af vef Innviðaráðuneytisins.

Grænbók um skipulagsmál er liður í endurskoðun á landsskipulagsstefnu 2015-2026. Hægt er að senda inn umsagnir eða ábendingar til og með 24. ágúst nk.

Grænbókin byggir m.a. á fyrirliggjandi gögnum frá Skipulagsstofnun og öðrum opinberum aðilum, vinnu starfshópa, rafrænni spurningakönnun meðal sveitarfélaga, opnu samráði við almenning og aðra hagaðila, m.a. með fundaröðinni „Vörðum leiðina saman“ sem haldin var í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga, sem og rafrænni spurningakönnun meðal ungs fólks.

Grænbókin leggur grunn að endurskoðun landsskipulagsstefnu til næstu ára. Í henni er stöðumat og drög að lykilviðfangsefnum, framtíðarsýn og áherslum, sem og nálgun við mat á umhverfisáhrifum. Samhliða grænbók eru drög að greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála í landinu í kynningu sem viðauki.

Hvítbók um húsnæðismál

Hvítbók um húsnæðismál er hluti af stefnumótunarferli stjórnvalda en með henni eru sett fram drög að húsnæðisstefnu til fimmtán ára ásamt fimm ára aðgerðaáætlun sem byggja m.a. á stöðumati grænbókar um húsnæðismál sem kom út í apríl sl. Markmið með gerð hvítbókarinnar er að hvetja til umræðu um þau drög að húsnæðisstefnu sem þar eru sett fram ásamt framtíðarsýn, markmiðum og aðgerðum.

Hvítbókin verður í opnu samráðsferli í samráðsgátt stjórnvalda frá 19. júlí til 4. september 2023. Að því loknu verður farið yfir athugasemdir umsagnaraðila. Í framhaldinu verður tillaga til þingsályktunar um húsnæðisstefnu lögð fram á Alþingi á komandi haustþingi.