Gott samstarf mikilvægt

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, flutti ávarp á haustþingi SSNV í morgun, þingið fer fram í Árgarði í Skagafirði.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, í ræðustól á haustþingi SSNV.

Í ávarpi sínu fór Heiða yfir stóru verkefnin fram undan. Sagði hún vanfjármögnun í málefnum fatlaðs fólks áhyggjuefni, þó vissulega sé jákvætt að heyra þann tón sem innviðaráðherra sló á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í síðustu viku. Þá ræddi hún um rammasamning um húsnæðisuppbyggingu sem skrifað var undir í sumar, þar þarf að tryggja að hugur fylgi máli hjá ríkisvaldinu og að verkefninu fylgi þeir fjármunir sem þarf í uppbygginguna.

Margvísleg verkefni

Móttaka flóttafólks er vaxandi verkefni hjá flestum sveitarfélögum, þar þurfa sveitarfélögin að standa sig vel og taka vel á móti því fólki sem hér leitar skjóls. Einnig ræddi Heiða um farsældarlögin og sagði að þar væru faldir miklir hagsmunir fyrir okkur öll og mikilvægt að vel takist til við innleiðingu þeirra. Það sama gildir um innleiðingu Hringrásarverkefnisins. Við verðum að tryggja að við gerum þessa hluti vel, sambandið hefur lagt mikla vinnu í þetta verkefni og sveitarfélögin geta nýtt sér þá vinnu til að létta undir vegna innleiðingarinnar.

Stafræn umbreyting hefur verið hröð. Sambandið og landshlutasamtökin þurfa að standa með íbúum landsins í því að allir fái notið þeirra gæða sem stafræna byltingin felur í sér.

Kjarasamningar verða margir lausir á næsta ári. Samband íslenskra sveitarfélaga leiðir kjaraviðræður fyrir hönd sveitarfélaganna og það er mikilvægt að samninganefndin og stjórn sambandsins fái meiri stuðning frá sveitarfélögunum og að þau leggi línuna sem fara þarf eftir við samningagerðina.

Í lokaorðum sínum lagði Heiða áherslu á gott samstarf og mikilvægi þess að kjörnir fulltrúar og stjórn sambandsins eigi áfram gott samstarf.