Góður upplýsingafundur vegna ástandsins í Grindavík

Samband íslenskra sveitarfélaga boðaði til fundar í dag með fulltrúum sveitar- og bæjarstjórna víðsvegar um landið, ásamt fulltrúum almannavarna og ríkisins vegna ástandsins í Grindavík.

Mynd: Wikipedia

Aðalefni fundarins var að ræða stöðu þeirra einstaklinga sem hafa neyðst til þess að flýja heimili sín nú um helgina og hvernig viðbragðsaðilar geti samræmt sín viðbrögð og brugðist sem best við. Fundurinn hafði einnig þann tilgang að hvetja  sveitarfélögin í landinu til að leggja Grindvíkingum lið eftir getu og möguleikum. Óhætt er að segja að sveitarfélög um allt land hafi tekið vel í þá ósk og hafa mörg þegar sett af stað aðgerðir.  

Margar áskoranir blasa við velferðarkerfi ríkis og sveitarfélaga, skólaþjónustu og öðrum stuðningskerfum ef verstu sviðsmyndir verða að veruleika. Voru aðilar fundarins sammála um að mikilvægt sé miðla upplýsingum til allra sem málið varðar og að þær séu samræmdar og aðgengilegar.

Fundurinn í dag var vel sóttur og áttu sér stað góðar og uppbyggilegar umræður um hvernig þessir aðilar geta tekið höndum saman til þess að bregðast sem best við þeim aðstæðum sem Grindvíkingar standa frammi fyrir.

Samband íslenskra sveitarfélaga ítrekar að hugur okkar og sveitarfélagana er með Grindvíkingum á þessum erfiðu tímum.