Góður árangur sveitarfélaga við innleiðingu Borgað þegar hent er kerfa 

Samband íslenskra sveitarfélaga og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hafa staðið saman að verkefni er styður sveitarfélög við að innleiða breytta gjaldheimtu vegna meðhöndlunar úrgangs í gegnum álagningarkerfið.

Sambandið leiðir verkefnið en alls voru 37 sveitarfélög vítt og breitt um landið þátttakendur í því undir lok árs 2023, 30 af landsbyggðinni og öll sveitarfélögin 7 á höfuðborgarsvæðinu. Af þeim höfðu 25 lokið við öll skref verkefnisins og innheimtu samkvæmt Borgað þegar hent er kerfi í upphafsálagningu árið 2024 sem þýðir að 70% landsmanna býr við þetta nýja fyrirkomulag. Önnur þátttökusveitarfélög vinna áfram að markmiði verkefnisins og stefna að því að uppfæra álagninguna um mitt ár 2024. Verkefnið er fjármagnað með styrk frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. 

Verkefnið er partur af átakinu Samtaka um hringrásarhagkerfi sem hófst árið 2021 og styður sveitarfélög við að innleiða nýjar lagakröfur um meðhöndlun úrgangs. Samkvæmt lögum ber sveitarfélögum ekki einungis að innheimta gjöld vegna meðhöndlunar úrgangs sem næst raunkostnaði heldur einnig að hverfa frá innheimtu fastra gjalda. Í stað fasts gjalds, þurfa sveitarfélög að aðlaga innheimtu sína að magni og tegund úrgangs sem handhafi úrgangs lætur frá sér. Fasta gjaldið má aðeins standa undir 50% kostnaðar við málaflokkinn til ársins 2025 og 25% eftir það.  

Borgað þegar hent er (BÞHE) hentar til að innheimta breytileg gjöld sem taka mið af magni og tegund úrgangs sem hver og einn lætur frá sér og byggir á mengunarbótarreglunni sem segir að sá sem valdi mengun skuli greiða fyrir þann kostnað sem af henni hlýst. Markmiðið með þessu kerfi er að búa til fjárhagslega hvata til að draga úr myndun úrgangs og skila úrgangi flokkuðum til endurnotkunar og endurvinnslu og annarar endurnýtingar, fremur en með blönduðum úrgangi til urðunar. Íbúar hafa þannig ákveðinn sveigjanleika til að hafa áhrif á kostnað sinn við meðhöndlun úrgangs með því að ákveða stærð og fjölda og tegund íláta við sitt heimili.