Samninganefndir Sambands íslenskra sveitarfélaga og BSRB funduðu í húsakynnum ríkissáttasemjara í gærkvöldi og lauk fundinum upp úr miðnætti.
Markmið fundarins var að sjá hvort hægt væri að þoka viðræðum áfram í ljósi frekari verkfalla sem skella á á næstu dögum. Á fundinum áttu sér stað góð samtöl og boðaði aðstoðarsáttasemjari aðila aftur á fund strax í dag.
Sambandið bindur vonir til að viðræðurnar hreyfist áfram í rétta átt á næstu dögum. Sú staða sem upp er komin er alvarleg og hefur haft áhrif á fjölda aðila og leggur Sambandið mikla áherslu á að klára samninga við BSRB eins fljótt og hægt er. Á undanförnum dögum hefur Sambandið skrifað undir kjarasamninga við Eflingu, Kennarasamband Íslands og BHM, og hefur lagt á borðið mjög sanngjarnt tilboð til félagsmanna BSRB, þar sem áherslan er á að lyfta lægst launuðu hópunum enda eru hlutfallshækkanir launa hærri en BSRB samdi um nýlega við ríki og Reykjavíkurborg.