Gluggað í fjárhagsáætlanir sveitarfélaga

Fjárhagsáætlanir sveitarfélaga fyrir árin 2018 til 2021 taka mið af spám um áframhaldandi hagvöxt hér á landi. Skuldir og skuldbindingar lækka enn, sjöunda árið í röð, sem hlutfall af tekjum og fara úr 106% árið 2018 í 95% árið 2021 gangi áætlanir eftir. Árleg samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga til næstu fjögurra ára er komin út, barmafull af margs konar fjárhagsupplýsingum.

Fjárhagsáætlanir sveitarfélaga fyrir árin 2018 til 2021 taka mið af spám um áframhaldandi hagvöxt hér á landi. Skuldir og skuldbindingar lækka enn, sjöunda árið í röð, sem hlutfall af tekjum og fara úr 106% árið 2018 í 95% árið 2021 gangi áætlanir eftir. Árleg samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga til næstu fjögurra ára er komin út, barmafull af margs konar fjárhagsupplýsingum.

Samantektin byggir á gögnum þeirra sveitarfélaga sem skilað hafa fjárhagsáætlunum rafrænt inn í upplýsingaveitu sveitarfélaga hjá Hagstofu Íslands. Um er að ræða fjárhagsáætlanir 64 sveitarfélaga af 74, en í þeim búa liðlega 99% landsmanna.

Auk lækkandi skuldahlutfalls, eru helstu niðurstöður m.a. þær, að sveitarfélögin ráðgera betri rekstrarniðurstöðu hjá A-hluta á árinu 2018 en fjárhagsáætlun 2017 gaf til kynna, eða sem nemur 2,2% af tekjum í stað 1,2%. Hvað þriggja ára áætlanir fyrir árin 2019-2021 snertir, þá taka þær mið af spám um hagvöxt og er gert ráð fyrir að tekjur hækki í takti við þær spár. Gangi þessar áætlanir eftir mun rekstrarafgangur fara vaxandi sem hlutfall af tekjum og verða 5,6% árið 2021.

Aukið svigrúm til fjárfestinga er jafnframt nýtt og mun lántaka til lengri tíma aukast samfara því. Á hinn bóginn hefur fjöldi sveitarfélaga ekki tekið tillit til uppgjörs gagnvart Brú – lífeyrissjóð starfsmanna sveitarfélaga í fjárhagsáætlunum sínum. Flest munu taka lán til að gera upp við lífeyrissjóðinn og verða skuldir væntanlega hærri en fjárhagsáætlanir kveða á um.

Samantektin tekur að venju einvörðungu til A-hluta sveitarfélaga, þ.e. þeirrar starfsemi sveitarfélaga sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð af skatttekjum. Til B-hluta þeirra heyra stofnanir sveitarfélaga, fyrirtæki og aðrar rekstrareiningar sem að hálfu eða meirihluta eru í  eigu sveitarfélaga og eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar. Eru veitur, hafnir, sorpeyðingu og félagslegt húsnæði á meðal þeirra verkefna sem finna má í B-hlutanum.

Rekstrarreikningar-A-hluta-2018