Gjörbreytt staða opinbera fjármálakerfisins

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var síðastur þeirra sem ávörpuðu fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í dag. Hann byrjaði á að minnast á nýjan samning og yfirlýsingu um stuðning stjórnvalda við sveitastjórnirnar og sagði að enn ætti eftir að hnýta ýmsa lausa enda á komandi misserum og árum.

Bjarni fór yfir umfang og afleiðingar áfallsins sem COVID faraldurinn hefur í för  með sér og sagði að í þessari nýju og óvæntu stöðu kæmi sér vel að undanfarin ár hefur verið byggt upp efnahagslegt svigrúm sem gerði stjórnvöldum kleift að takast á við þetta krefjandi viðfangsefni.

Upptökur og erindi frá báðum dögum ráðstefnunnar.

Bjarni Benediktsson á fjármálaráðstefnu 2020
Bjarni Benediktsson á fjármálaráðstefnu 2020

Bæði ríkið og sveitarfélög hefðu verið að lækka skuldir og sömuleiðis hefði skuldahlutfall fyrirtækja og heimilanna í landinu lækkað verulega á undanförnum árum. Á sama tíma hefði verið byggður upp mikill styrkur í fjármálakerfinu og að teknu tilliti til góðs gjaldeyrisforða þá væri staða þjóðarinnar til að fást við niðursveiflu mjög sterk.

Hann sagði COVID faraldurinn hafa gjörbreytt stöðu opinbera fjármálakerfisins. Halli á rekstri hins opinbera á þessu ári sem gert var ráð fyrir að yrði um 0,8%  verður 14,5% og skuldir hins opinbera sem áttu að vera undir 30% af landsframleiðslu gætu þurft að fara í yfir 60% árið 2022.

„Ég hefði ekki haft hugmyndaflug til að láta mér detta í hug að ég ætti eftir að koma fram með tölur um halla ríkissjóðs tvö ár í röð langt yfir 200 milljarða króna. Þetta er ofboðslega alvarleg staða sem þarf að bregðast og við byrjuðum á því í vor,“ sagði Bjarni. Hann sagði að það væri að tapast landsframleiðsla en menn tryðu því að með því að leyfa hallanum að myndast væri verið að bjarga miklum verðmætum. „Við trúum því að við getum gert þetta svona af því að þetta er tímabundið ástand og að landsframleiðslan verði á betri stað þegar viðspyrnan fæst og umsvif í samfélaginu fara að aukast.“   Hallinn á þessu og næsta ári er um 400 milljarðar króna sem fjármálaráðherra segir að muni skila sér út í hagkerfið.  Alls stefnir í 900 milljarða króna halla á afkomu hins opinbera, það er ríki og sveitarfélögum, á árunum 2021 til 2025.

Viðbótarstuðningur við sveitarfélögin

Bjarni sagði að það hefði verið ábyrg leið að setja á fót sameiginlega nefnd með sveitarfélögunum til að fá upplýsta og skýra mynd af því hvernig COVID faraldurinn bitnaði á þeim og taka síðan ákvörðun um verkefni í framhaldi af slíkri greiningu. Hann undirstrikaði að ríkissjóður vildi að sjálfsögðu standa með sveitarfélögunum í þessari stöðu en miklu skipti hvernig til tækist bæði hjá ríkinu og hjá sveitarstjórnunum.  Hann sagði að það þekktu allir þau verkefni sem fengu sérstaka viðbótarfjárveitingu með yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en bætti því við að það ylli honum vonbrigðum að þurfa enn og aftur að ræða fjármögnun á þjónustu við fatlað fólk. „Mér fannst við gefa okkur góðan tíma til að undirbúa þennan flutning á þessari þjónustu til sveitarfélaganna. Við gáfum okkur tvö ár til reynslu til að ekki þyrfti að halda áfram að ræða þetta eftir að búið væri að flytja málaflokkinn. En samt er þetta komið hér enn og aftur og það eru vonbrigði,“ sagði Bjarni.

Endurmat hjúkrunarþjónustu

Fjármálaráðherra gerði einnig að umtalsefni samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga sem felur í sér endurmat útgjalda til hjúkrunarþjónustu. Gerð verður heildstæð greining á stöðu þjónustunnar og á mögulegum aðgerðum til að mæta hjúkrunarþörf aldraðra á öruggan og hagkvæman hátt. Sagði Bjarni að endurmat á útgjöldum hjúkrunarþjónustu væri ein af stóru áskorunum hins opinbera á komandi árum. Þjóðin væri að eldast og því skipti miklu að sitja ekki uppi með gamaldags aðferðafræði við að hlúa að eldri kynslóðinni. Hann sagðist vilja fylgjast vel með því sem væri að gerast á þessum vettvangi og nefndi sem dæmi nýopnað hjúkrunarheimili Hrafnistu við Sléttuveg í Fossvogi þar sem væri blandað saman margvíslegri þjónustu fyrir aldraða, rekstri hjúkrunarheimilis, leiguíbúða og þjónustumiðstöðvar. „Mín tilfinning er sú að við séum með ofstaðlaðar ríkislausnir sem við þurfum að brjótast undan og horfa á þetta meira út frá þörfinni,“ sagði Bjarni.

Margt úrelt í opinberri þjónustu

Fjármálaráðherra gerði einnig grein fyrir samstarfi um stafræna þjónustu sem miðar að því að koma Íslandi í hóp fremstu þjóða heims á því sviði. Verkefnið snýst meðal annars um að stórauka framboð opinberrar þjónustu um vefsíðuna Island.is og sagði Bjarni að menn væru nú á fullu við að forrita stafrænar lausnir fyrir framtíðina sem myndi breyta upplifun almennings að því að eiga samskipti við hið opinbera. „Þegar við sjáum að einstaka banki getur leyst öll mál með snjallforriti í heimabanka þá ætlast maður til þess að ríkið rísi undir einhverju sambærilegu. Margt af því sem við erum að gera í opinberri þjónustu í dag, bæði ríki og sveitarfélögum, er úrelt. Ef við komumst inn í nútímann og förum kannski örlítið lengra þá gjörbyltum við upplifun fólks sem mun auka traust á öllu því sem við erum að gera,“ sagði Bjarni.

Sameiginleg markmið

Sameiginleg markmið hagstjórnar endurspeglast að sögn Bjarna í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga sem gert er í aðdraganda fjármálaáætlunar. Þessi markmið eru að hið opinbera auki ekki á samdráttinn til skemmri tíma og að stöðva hækkun skulda hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu fyrir árslok 2025. Hann sagði að þessi markmiðssetning krefðist aðgerða sveitarfélaga og ríkisins þegar fram í sækir og sagðist bjartsýnn á að meiri hagvöxtur væri í kortunum ef veiran fer að gefa eftir og ef teknar verða réttar ákvarðanir um örvandi aðgerðir fyrir atvinnulíf og almenning.