Geitungarnir og þorpið hlutu Múrbrjótinn

Ruth Jörgensdóttir Rauterberg og Þorpið, frístundamiðstöð á Akranesi og Geitungarnir, vinnu- og virknitilboð í Hafnarfirði, hljóta Múrbrjótinn 2018, viðurkenningu landsamtakanna Þroskahjálpar.

Ruth Jörgensdóttir Rauterberg og Þorpið, frístundamiðstöð á Akranesi og Geitungarnir, vinnu- og virknitilboð í Hafnarfirði, hljóta Múrbrjótinn 2018

Múrbrjóturinn er viðurkenning sem landssamtökin Þroskahjálp veita árlega þeim sem brjóta niður múra í réttindamálum og viðhorfum til fatlaðs fólks og auðvelda með því móti fötluðum einstaklingum að verða fullgildir þátttakendur í samfélaginu. 

Verðlaunagripurinn er smíðaður á handverkstæðinu Ásgarði þar sem fólk með þroskahömlun starfar.

Geitungarnir - nýsköpunar og atvinnuþjálfun fyrir fatlað fólk

Geitungarnir, vinnu- og virknitilboð í Hafnarfirði, hljóta Múrbrjót landssamtakanna Þroskahjálpar 2018 vegna framlags í þágu aukinna tækifæra fatlaðs fólks á vinnumarkaði. Verkefnið felur í sér aukin tækifæri fatlaðs fólks með miklar stuðningsþarfir til þátttöku á almennum vinnumarkaði. Lögð er áhersla á að hugmyndir notanda ráði för. Nýbreytnin í starfi Geitunganna felst í því að einstaklingar með miklar stuðningsþarfir fá tækifæri til að reyna sig á almennum vinnumarkaði með stuðningi aðstoðarmanna. Fyrirtæki í Hafnarfirði hafa tekið virkan þátt og boðið upp á starfsprófanir fyrir Geitunga með góðum árangri. Geitungarnir eru virknitilboð þar sem leitast er við að  hafa fjölbreytta valkosti og boðið upp á starfsþjálfun/starfsprófun á almennum vinnumarkaði með ófötluðu fólki. Unnið er að því að byggja brú, fyrir þá sem það vilja, frá hæfingu yfir í atvinnu með stuðningi á almennum vinnumarkaði. Einnig er unnið að skapandi verkefnum í húsnæði Geitunganna og unnið markvisst að valdeflingu hvers og eins með fræðslu, vinnu og/eða virkni.

Geitungarnir voru upphaflega tilraunaverkefni sem Hafnarfjarðarbær fór af stað með haustið 2015. Tilraunin var samstarfsverkefni Vinnumálastofnunar og Hafnarfjarðarbæjar til eins árs og sneri að nýsköpun og atvinnuþjálfun fatlaðs fólks. Verkefnið er í dag rekið af Hafnarfjarðarbæ. Geitungarnir eru með verslun í húsnæði sínu að Suðurgötu 14, Búð Hússins, og selja þar vörur sem þeir hafa framleitt með m.a. efnislega endurnýtingu að leiðarljósi. 

Ruth Jörgensdóttir Rauterberg og Þorpið, frístundamiðstöð á Akranesi

Ruth Jörgensdóttir Rauterberg og Þorpið, frístundamiðstöð á Akranesi, hljóta Múrbrjót landssamtakanna Þroskahjálpar 2018  vegna framlags í þágu margbreytileikans og jafnra tækifæra. Ruth Jörgensdóttir Rauterberg, þroskaþjálfi og aðjunkt við Menntavísindasviðs HÍ og frístundamiðstöðin Þorpið á Akranesi hafa þróað tómstundastarf með margbreytilegum hópum sem byggir á samvinnu, þar sem allir geta tekið virkan þátt, tileinkað sér nýja þekkingu og öðlast ný sjónarhorn.

Frístundamiðstöðin Þorpið sinnir frístundastarfi og forvörnum með börnum og ungmennum.  Í því starfi er lögð mikil áhersla á að mæta þörfum hvers og eins og miða starfsemina út frá þörfum samfélagsins hverju sinni. Í öllu starfi Þorpsins er gert ráð fyrir margbreytileika mannlífsins og hver og einn getur fengið hvatningu og stuðning við hæfi í sínu tómstundastarfi. Á undanförnum árum hefur starfsemi Þorpsins þróast.  Samhliða þessari þróun rannsakaði Ruth, með stuðningi og samstarfi við stjórnendur Þorpsins, frístundastarfið þar sem meginmarkmiði var að skapa vettvang fyrir samvinnu barna og leiðbeinenda frístundamiðstöðvarinnar í þeim tilgangi að þróa tómstundastarf með margbreytilegan hóp 10–12 ára barna.

Mubrjotshafar-2018-2