Fyrsti fundur skipulagsmálanefndar sambandsins

Skipulagsmálanefnd sambandsins hélt þann 30. nóvember fyrsta fund sinn á kjörtímabilinu.

Nefndina skipa 2022-2026:

  • Halla Björk Reynisdóttir, formaður skipulagsmálaráðs Akureyrarbæjar,
  • Sveinn Björnsson, byggingarfulltrúi Reykjanesbæjar,
  • Nanný Arna Guðmundsdóttir, formaður umhverfis- og framkvæmdanefndar Ísafjarðarbæjar og stjórnarmaður í sambandinu,
  • Jón Kjartan Ágústsson, svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins og
  • Einar Þorsteinsson, borgarfulltrúi og stjórnarmann í sambandinu.

Helsta málefni á þessum fundi var kynning frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á rammasamningi um aukið framboð íbúða 2023-2032 og sameiginlega sýn í húsnæðismálum, sem var undirritaður í byrjun júlí 2022 milli Sambands íslenskra sveitarfélaga,  innviðaráðuneytis og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um aukið framboð húsnæðis. Fylgiskjal með samkomulaginu er aðgerðaáætlun sem byggð er að stærstum hluta á tillögum átakshóps um aðgerðir í húsnæðismálum, sem skilaði tillögum í maí, í tengslum við endurskoðun svonefndra Lífskjarasamninga.

Til að gera grein fyrir stöðu vinnu á grundvelli rammasamningsins mættu á fundinn Hermann Jónasson, Anna Guðmunda Ingvarsdóttir og Elmar Erlendsson frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Kynntu þau framkvæmd rammasamningsins, þ.á m. viðræður við sveitarfélög um íbúðaþörf og uppbyggingaráform, sbr. 4. gr. samningsins. Einnig ræddu þau stöðu aðgerða í viðauka við samninginn og forgangsröðun þeirra. Fram kom í kynningunni að HMS hefur fundað með 36 sveitarfélögum á undanförnum vikum til að fara yfir íbúðaþörf og uppbyggingaráform. Stefnt er að því að ljúka samtali við öll sveitarfélög fyrir áramót. Heilt yfir hafa þessar viðræður gengið vel. Lengst er samtalið komið við Reykjavíkurborg. Nokkuð var rætt um áhrif endurskoðaðs manntals Hagstofu Íslands á mat á íbúðaþörf og að þær upplýsingar geti haft neikvæð áhrif á þá vinnu sem nú stendur yfir. Fram kom að það er ein af forsendum rammasamningsins að mat á íbúðaþörf er uppfært árlega. Upplýsingar um ofmat á íbúafjölda séu mikilvægar en það þurfi að greina þær betur og sú vinna standi yfir í samstarfi við Hagfræðistofnun og fleiri aðila. Af hálfu HMS og sambandsins er samt lögð áhersla á að greining á íbúðaþörf fer nú fram í allt öðru umhverfi en áður, þar sem nú er unnið með stafrænar upplýsingar úr mannvirkjaskrá um íbúðir í byggingu og á undirbúningsstigi. Hér sé í raun um algera byltingu að ræða sem geri greiningu á íbúðaþörf og endurmat á henni mun nákvæmari en áður var mögulegt.

5% íbúðauppbyggingar skal vera félagslegt húsnæði

Einnig var rætt um markmið rammasamningsins um að 5% íbúðauppbyggingar skuli vera félagslegt húsnæði og fleiri atriði sem snúa að þvi samtali við sveitarfélögin sem nú stendur yfir. Varðandi aðgerðaáætlun komu fram spurningar og ábendingar sem einkum vörðuðu áformaðar lagabreytingar um að tímabinda uppbyggingarheimildir og að sett verði lög um lóðarleigusamninga. Af hálfu nefndarinnar kom fram vilji til að hraða þessari vinnu eftir því sem kostur er. Einkum var lögð áhersla á að aðgerð D6 um að tímabinda uppbyggingarheimildir sé mikilvæg aðgerð til að sporna gegn lóðabraski og að lóðir bíði jafnvel árum saman án þess að nokkur uppbygging fari fram. Af hálfu HMS og sambandsins kom fram að lagabreytingar eru á forræði innviðaráðuneytis. Vinna við umræddar aðgerðir sé ekki komin af stað en markmiðið er að vinnan gangi eins hratt og kostur er.