Fyrsta skóflustungan tekin hjá Byggðastofnun

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tók nýlega fyrstu skóflustunguna að nýju skrifstofuhúsnæði fyrir Byggðastofnun á Sauðárkróki. Nýju húsnæði er ekki aðeins ætlað að leysa úr húsnæðisvanda stofnunarinnar heldur fylgir hönnun þess einnig eftir stefnumörkun úr byggðaáætlun 2018-2024.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tók nýlega fyrstu skóflustunguna að nýju skrifstofuhúsnæði fyrir Byggðastofnun á Sauðárkróki. Nýju húsnæði er ekki aðeins ætlað að leysa úr húsnæðisvanda stofnunarinnar heldur fylgir hönnun þess einnig eftir stefnumörkun úr byggðaáætlun 2018-2024.

Um fyrsta áfanga verksins er að ræða sem er jarðvinna, en vonir standa til að framkvæmdum verði að fullu lokið um miðbik ársins 2020. 

Byggðastofnun fluttist frá Reykjavík til Sauðárkróks árið 2001 og hefur frá þeim tíma verið í leiguhúsnæði. Það húsnæði hentar starfseminni illa og fór fram í samstarfi við Framkvæmdasýslu ríkisins ítarlegt mat öðrum húsnæðiskostum á Sauðárkróki. Niðurstaðan var sú að hagkvæmast væri að byggja hús sem væri lagað sérstaklega að þörfum stofnunarinnar. 

Á meðal þess sem litið var sérstaklega til við hönnun húsnæðisins voru sn. snertistöðvar, sem starfsmönnum annarra stofnana eða ráðuneyta mun bjóðast afnot af um lengri eða skemmri tíma. 

Snertistöðvum er ætlað að fylgja því eftir, að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði árið 2024 án staðsetningar, eins og stefnt er að  í stefnumótandi byggðaáætlun 2018-2024.  

Nýju skrifstofurnar verða að Sauðármýri 2. Starfsmenn Byggðastofnunar eru 27.

Skofla-1152

Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar flutti stutt ávarp í tilefni dagsins, áður en ráðherra, tók fyrstu skóflustunguna. Talsverður fjöldi gesta kom til að samfagna þessum áfanga í sögu stofnunarinnar (ljósm. Magnús Helgason).