Fyrsta landsáætlunin um uppbyggingu innviða

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur kynnt til umsagnar drög að landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Fjallar hún um stefnumótun vegna uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum, leiðum og svæðum. Jafnframt er kynnt verkefnaáætlun til þriggja ára. Umsagnarfrestur um drögin rennur út 26. febrúar nk. Þá gengst ráðuneytið jafnframt fyrir opnum kynningarfundi um landsáætlunina 15. febrúar nk.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur kynnt til umsagnar drög að landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Fjallar hún um stefnumótun vegna uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum, leiðum og svæðum. Jafnframt er kynnt verkefnaáætlun til þriggja ára.

Umsagnarfrestur um drögin rennur út 26. febrúar nk.

Þá gengst ráðuneytið jafnframt fyrir opnum kynningarfundi um landsáætlunina 15. febrúar nk.

Um er að ræða fyrstu 12 ára landsáætlun og þriggja ára verkefnaáætlun sem unnar eru samkvæmt lögum, nr. 20/2016, um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

Landsáætlunin er stefnumarkandi um gerð innviða á ferðamannastöðum til verndar náttúru og minja og skal hún lögð fram sem þingsályktunartillaga til samþykktar Alþingis. Verkefnaáætlun setur hins vegar fram tillögur að verkefnum á ferðamannastöðum, sem lagt er til að njóti stuðnings 2018-2020, auk tillagna um eflda landvörslu.

Sveitarstjórnir og þeir sem vinna fyrir þeirra hönd að málefnum ferðaþjónustu og ferðamannastaða eru hvattir til þess að kynna sér landsáætlunina og senda umsögn ef talið er tilefni er til.  Benda má í því sambandi á, að stefna landsáætlunar og sú forgangsröðun sem fram kemur í verkefnaáætlunin ætti enn fremur að geta nýst við gerð áfangastaðaáætlana sem einstakir landshlutar vinna nú að.

Einnig er rétt að hafa í huga að ferðamannastaðir sem þarfnast uppbyggingar eða verndunaraðgerða eru mun fleiri en fram kemur í þeirri verkefnaáætlun til þriggja ára sem nú er birt. Má í því sambandi nefna að yfirferð stendur yfir á styrkumsóknum sem bárust til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða í október sl. Er líklegt að niðurstaða um úthlutun úr Framkvæmdasjóði muni liggja fyrir á næstu vikum.

Ef þörf er á að skýra einstök atriði í landsáætlun er bent á að fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í verkefnisstjórn um gerð landsáætlunar var Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs sambandsins. Hægt er að beina fyrirspurnum til hans í tölvupósti á netfangið gudjon.bragason@samband.is eða í síma 515 4900.

Uppbygging-innvida