Fjármála- og efnahagsráðuneytið kynnir um þessar mundir nýjan og stafrænan álagningarseðil. Þetta breytta verklag boðar byltingarkenndar breytingar hjá því opinbera á næstu árum með notendavænni, einstaklingsmiðaðri og snjallvæddri stjórnsýslu. Skattgreiðendur geta sem dæmi kallað fram nánari upplýsingar um einstaka liði álagningarinnar og séð hlutfallslega skiptingu staðgreiðsluskatta hjá sér í tekjuskatt annars vegar og útsvar hins vegar.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið kynnir um þessar mundir nýjan og stafrænan álagningarseðil. Þetta breytta verklag boðar byltingarkenndar breytingar hjá því opinbera á næstu árum með notendavænni, einstaklingsmiðaðri og snjallvæddri stjórnsýslu. Skattgreiðendur geta sem dæmi kallað fram nánari upplýsingar um einstaka liði álagningarinnar og séð hlutfallslega skiptingu staðgreiðsluskatta hjá sér í tekjuskatt annars vegar og útsvar hins vegar.
Í kynningu sem Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, stóð nýlega fyrir kom jafnframt fram, að ríkisstjórnin hafi ákveðið að samskipti stjórnvalda og almennings verði frá og með árinu 2020 á stafrænum grunni.
Liður í þeirri vinnu er að vefgáttin á island.is verði gerð að opinberri þjónustugátt, samhliða uppbyggingu ríkis og sveitarfélaga á starfrænum stofnbrautum, eins og rakið er í nýlegu samkomulagi ríkisins og sambandsins á grundvelli laga um opinber fjármál.
Ríkisskattstjóri hefur með hliðsjón af þessari ákvörðun ríkisstjórnar ákveðið, að nýi og stafræni álagningarseðillinn verði í lok mánaðarins gerður aðgengilegur bæði á þjónustusíðu embættisins, eins og verið hefur, og í einstaklingsbundnum pósthólfum sem hver og einn hefur aðgang að með því að auðkenna sig inn á island.is.
Þess má svo geta, að spara má ríkissjóði um 120 m.kr. með því einu að fella niður póstsendingar á álagningarseðlum. Hafa Reykjavíkurborg og Sjúkratryggingar Íslands lýst yfir áhuga á að nýta sér pósthólfið, sem hefur um þó nokkra hríð verið í reynslunotkun hjá Þjóðskrá Íslands, Fjársýslu ríkisins og Tryggingastofnun.
Með niðurfellingu bréfapóst árið 2020, er jafnframt gert ráð fyrir, að árlegur heildarsparnaður ríkisins nemi um 500 m.kr. Þá gerir yfirfærsla í stafræn samskipti einnig kleift að bæta þjónustu við almenning með ýmiss konar áminningum, ábendingum og tilkynningum.
Þeir möguleikar sem aukin snjallvæðing hefur í för með sér á hagkvæmari og betri þjónustu stjórnvalda eru því miklir, bæði hvað ríkið snertir og sveitarfélög.
Ríkisskattstjóri hefur látið gera kynningarmyndband um stafræna álagningarseðilinn og er skipting staðgreiðsluskatta í tekjuskatt annars vegar og útsvar hins vegar m.a. notuð sem dæmi um breytta og upplýsingaríkari framsetningu. Það má svo e.t.v. hafa til marks um þessar byltingarkenndu breytingar, að gamla álagningarseðlinum hefur í þessu sambandi verið lýst, ekki sem barni, heldur barnabarni síns tíma.
Þessi framsetning sýnir jafnframt vel áhrif persónuafsláttarins á skatttekjur þess opinbera, þar sem afslátturinn dregst fyrst frá tekjuskattsgreiðslum ríkisins.
Myndin hér að neðan er tekin úr kynningarmyndbandinu. Myndbandið má nálgast ásamt öðrum gögnum á hlekkjum hér að neðan.