Fundur um breytta skipan barnaverndar

Samband íslenskra sveitarfélaga, í samvinnu við Félagsmálaráðuneytið hélt kynningarfund um breyttan skipan barnaverndar á mánudaginn s.l.

Á fundinum var farið yfir helstu breytingar á barnaverndarlögum sem taka gildi 28. maí 2022. Meðal helstu markmiða breytinganna er aukin fagþekking í barnavernd, stækkun barnaverndarumdæma og að barnaverndarnefndir verða lagðar af. Í stað þeirra tekur við barnaverndarþjónusta og umdæmisráð barnaverndar. Barnaverndarþjónusta skal hafa yfir að ráða nægri fagþekkingu til að geta sinnt verkefnum og sveitarstjórn eða fastanefnd fer með stefnumótun, fjárhag o.fl. en getur ekki gefið barnaverndarþjónustu fyrirmæli um meðferð einstakra mála. 

Umdæmisráð barnaverndar

Umdæmisráð barnaverndar úrskurða um tilteknar íþyngjandi ákvarðanir sem barnaverndarþjónusta tekur. Umdæmisráð eru skipuð af sveitarstjórn til fimm ára í senn og  þau sem sitja í ráðinu skulu vera félagsráðgjafi, lögfræðingur og sálfræðingur.    

Þessar breytingar hafa í för með sér að mörg sveitarfélög þurfa að huga að samvinnu sín á milli bæði við rekstur barnaverndarþjónustu og umdæmisráða, ásamt því að taka ákvörðun um hvort óskað verði eftir undanþágu frá 6.000 lágmarksfjölda að baki barnaverndarþjónustu. 

Fundurinn  var í fjarfundi og var mjög vel sóttur.  Hér er hægt að nálgast  glærur og upptöku af fundinum.