Funduðu með fulltrúum Grindavíkur

Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga funduðu með Fannari Jónassyni, bæjarstjóra Grindavíkur og öðrum fulltrúum bæjarins í vikunni.

Efni fundarins var að ræða þá stöðu sem blasir við í Grindavík og hvernig sambandið og önnur sveitarfélög geta stutt við Grindvíkinga og lagt þeim lið eftir getu og möguleikum. Voru aðilar fundarins sammála um að mikilvægt sé að halda áfram góðu samtali og miðla aðgengilegum upplýsingum til allra sem málið varðar.

Sambandið hefur verið í góðu sambandi við sveitarstjórn Grindvíkur frá því að jarðhræringar á Reykjanesi hófust á haustmánuðum og hefur aðstoðað við að taka saman upplýsingar ásamt því að styðja við sveitarfélagið í verkefnum sem snúa að skóla og velferðarmálum. Fulltrúar sambandsins hafa setið í ýmsum teymum sem miða fyrst og fremst að því að styðja við Grindvíkinga og hefur það verkefni verið unnið í góðu samstarfi við önnur sveitarfélög og ráðuneyti.

Sambandið mun halda áfram virku samtali við fulltrúa Grindavíkur, önnur sveitarfélög og ríkið. Þá ítrekar sambandið að hugur okkar og sveitarfélaganna er með Grindvíkingum á þessum erfiðu tímum.

Mynd: Wikipedia