Funduðu með eftirlitsnefnd Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Walter Fannar Kristjánsson, sem situr í stjórn sambandsins, og Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdastjóri sambandsins, funduðu í gær með eftirlitsnefnd Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins.

Nefndin er stödd hér á landi í eftirlitsheimsókn þar sem hún skoðar stöðu og innleiðingu á Evrópusáttmálanum um sjálfstjórn sveitarfélaga.

Á fundinum var meðal annars rætt um hvernig brugðist hefði verið við ábendingum síðustu eftirlitsheimsóknar árið 2016. Þá var rætt um nýjungar sem hefðu átt sér stað og helstu áskoranir sem sveitarfélög á Íslandi standa frammi fyrir. Fór sambandið meðal annars yfir nýjungar varðandi íbúalágmark í sveitarstjórnarlögum, breytingar á ákvæðum um íbúakosningar og breytingar á stjórnsýslu barnaverndar. Hvað varðar áskoranir fóru fulltrúa sambandsins yfir fjármögnun verkefna sveitarfélaganna, stöðuna á endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs, fólksfjölgun og þörf fyrir aukna innviðauppbyggingu, umhverfismál og lýðræðismál ásamt því að ræða sérstaka stöðu Grindavíkur. Voru aðilar sammála  um að fundurinn hefði verið upplýsandi og gagnlegur.

Eftirlitsnefndin mun einnig hitta nokkur sveitarfélög, ráðherra, fulltrúa dómstóla og umboðmann Alþingis með það að markmiði að ná vel utan um stöðu sveitarfélaga á Íslandi. Í kjölfarið mun koma út skýrsla þar sem farið er yfir stöðu Íslands gagnvart sáttmálanum og eflaust verða þar ábendingar um það sem nefndir telur að betur megi fara.

Eftirlitsnefndin hefur komið reglulega til landsins frá því að evrópski sáttmálinn um sjálfsstjórn sveitarfélaga var fullgildur árið 1991, síðast árið 2016. Hún hefur hrósað þeirri þróun hér á landi sem stuðlað hefur að aukinni sjálfsstjórn sveitarfélaga, þar á meðal þátttöku sveitarfélaga í ákvarðanatöku á landsvísu, sem og auknu samstarfi milli sveitarfélaga og þátttöku borgara í sveitarfélögum.

Sveitarstjórnarþingið, „Congress of Local and Regional Authorities“, er ein af stofnunum Evrópuráðsins. Þingið er eina stofnunin sinnar tegundar í Evrópu sem hefur með höndum að meta framkvæmd lýðræðis í sveitarfélögum og héruðum í öllum 47 aðildarríkjum Evrópuráðsins. Á þinginu eiga sæti kjörnir fulltrúar frá sveitarfélögum og svæðum í Evrópu. Þingfulltrúar eru 324 og þeir eru fulltrúar yfir 150.000 sveitarfélaga og svæða í Evrópu.