Frumvarp um brottfall laga til að einfalda regluverk lagt fram á Alþingi

Þann 18. febrúar mælti samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir frumvarpi um brottfall 25 laga á málefnasviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Lögin, sem lagt er til að felld verði brott, hafa öll lokið hlutverki sínu en eru að formi til enn í gildi. Elstu lögin eru frá árinu 1917. Með niðurfellingu lagnna er verið að einfalda regluverk og fella niður úrelt lög, eða lög sem hafa lokið hlutverki sínu.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur ráðist í heildarendurskoðun og gert umbætur á mörgum lagabálkum ráðuneytisins í þeim tilgangi að einfalda regluverk, takast á við breyttar samfélagsaðstæður og stafræna þróun. Dæmi um þetta eru lög um lögheimili, ný heildarlög um skip og frumvarp um stefnumarkandi áætlanir á sviði samgangna, fjarskipta og byggðamála. Ráðherra sagði ráðuneytið einnig hafa óskað eftir ábendingum frá einstaklingum og fyrirtækjum um það sem bæta mætti í þjónustu, eftirliti og framfylgd regluverks hjá ráðuneytinu og fagstofnunum þess. Þær ábendingar hafi nýst vel í vinnu á vegum ráðuneytisins.

Sérlög um bæjarstjórnir og kaupstaðarréttindi felld niður

Flest lögin sem felld yrðu úr gildi eru sérlög um bæjarstjórnir í tilteknum bæjarfélögum (11 lög) og um kaupstaðarréttindi einstakra kaupstaða (8 lög). Með heildstæðum sveitarstjórnarlögum væri nú kveðið almennt á um stjórnskipan og stjórnarhætti sveitarstjórna. Þar væri nánar kveðið á um lagaramma um sveitarstjórnir, hlutverk þeirra og stjórnun. Með sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi árið 1986 varð sú breyting að bæir gátu orðið kaupstaðir að uppfylltum vissum skilyrðum svo ekki þurfti lengur sérlög til. 

Lög sem felld yrðu úr gildi

  • Lög um bæjarstjórn Ísafjarðar, nr. 67/1917
  • Lög um bæjarstjórn Vestmannaeyja, nr. 26/1918
  • Lög um bæjarstjórn á Siglufirði, nr. 30/1918
  • Lög um bæjarstjórn á Seyðisfirði, nr. 61/1919
  • Lög um bæjarstjórn í Neskaupstað í Norðfirði, nr. 48/1928
  • Lög um bæjarstjórn á Akranesi, nr. 45/1941
  • Lög um bæjarstjórn í Ólafsfirði, nr. 60/1944
  • Lög um bæjarstjórn á Sauðárkróki, nr. 57/1947
  • Lög um bæjarstjórn í Keflavík, nr. 17/1949
  • Lög um bæjarstjórn í Húsavík, nr. 109/1949
  • Lög um bæjarstjórn í Kópavogskaupstað, nr. 30/1955
  • Lög um tekjur sveitarfélaga, samkvæmt gjaldskrám og reglugerðum, nr. 83/1971
  • Lög um kaupstaðarréttindi til handa Seltjarnarneshreppi, nr. 16/1974
  • Lög um kaupstaðarréttindi til handa Bolungarvíkurkauptúni, nr. 17/1974
  • Lög um kaupstaðarréttindi til handa Grindavíkurhreppi, nr. 18/1974
  • Lög um kaupstaðarréttindi til handa Eskifjarðarhreppi, nr. 19/1974
  • Lög um kaupstaðarréttindi til handa Dalvíkurkauptúni, nr. 20/1974
  • Lög um kaupstaðarréttindi til handa Garðahreppi, nr. 83/1975
  • Lög um kaupstaðarréttindi til handa Njarðvíkurhreppi, nr. 86/1975
  • Lög um kaupstaðarréttindi til handa Selfosskauptúni, nr. 8/1978
  • Lög um lagningu sjálfvirks síma, nr. 32/1981
  • Lög um kaupstaðarréttindi til handa Ólafsvíkurhreppi, nr. 34/1983
  • Lög um jöfnunargjald vegna alþjónustu árið 2000, nr. 72/2000
  • Lög um jöfnunargjald vegna alþjónustu árið 2001, nr. 160/2000
  • Lög um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf., nr. 75/2001