Frumvarp um breytingu á tekjustofnum sveitarfélaga

Birt hafa verið í samráðsgátt stjórnarráðsins drög að frumvarpi um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Umsagnarfrestur er veittur til 8. október n.k.

Birt hafa verið í samráðsgátt stjórnarráðsins drög að frumvarpi um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Umsagnarfrestur er veittur til 8. október n.k.

Frumvarpið er samið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, með aðkomu sambandsins, og er markmið þess fyrst og fremst að styrkja lögbundið hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Með það að markmiði var farið yfir regluverk sjóðsins, sbr. III. kafla laganna, reglna á grundvelli þeirra og vinnureglna sjóðsins sem staðfestar hafa verið af ráðherra, til að annars vegar styrkja forsendur og grundvöll úthlutana úr Jöfnunarsjóði og hins vegar skýra heimildir löggjafarinnar til skerðinga á framlögum úr sjóðnum í samræmi við dóm Hæstaréttar frá 14. maí 2019, í máli nr. 34/2018. Er frumvarp þetta afrakstur þeirrar vinnu og er tilgangur þess að færa frekari stoð undir þær reglur sem eiga að gilda um úthlutanir jöfnunarframlaga úr sjóðnum.

Skipta má meginefni frumvarpsins í þrjá flokka. Í fyrsta lagi er um ræða breytingar sem lagðar eru til í þeim tilgangi að uppfæra tilvísanir laganna og úreld ákvæði. Í annan stað eru lagðar til breytingar þar sem betur er gerð grein fyrir forsendum og útreikningi framlaga sem áður var að finna í reglugerðum og reglum sem settar hafa verið á grundvelli laganna. Loks er í frumvarpinu að finna ákvæði sem heimila Jöfnunarsjóði að gera ákveðnar tilfærslur á úthlutun framlaga sjóðsins.

Varðandi síðastnefnda atriðið koma fram nánari skýringar í 6. kafla almennra athugasemda við frumvarpið en þar segir m.a.:

„Verði frumvarpið að lögum ætti það að girða fyrir hættu á málaferlum sem gætu haft í för frekari ríkisútgjöld og lækkun framlaga úr sjóðnum til allra sveitarfélaga. Miðar frumvarpið því annars vegar að því að gera Jöfnunarsjóði sveitarfélaga áfram kleift að sinna því meginhlutverki sínu að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum og hins vegar að því að stuðla að styrkingu sveitarstjórnarstigsins með því að auðvelda sameiningar sveitarfélaga. Ekki er gert ráð fyrir að breytingar verði á tekjum Jöfnunarsjóðs en lagt er til að sjóðurinn haldi eftir 1.000 milljónum kr. af heildartekjum sjóðsins á hverju ári í 15 ár, fyrir utan þær tekjur sem koma til vegna grunnskóla og málefna fatlaðs fólks, til að koma til móts við þau framlög sem fyrirhugað er að veita sveitarfélögum vegna sameiningar þeirra sbr. a-lið 2. gr. frumvarpsins. Þannig yrði til sjóður sem hefði það hlutverk að tryggja aukinn fjárhagslegan stuðning við sameiningu sveitarfélaga.

Stuðningur við sameiningar sveitarfélaga hefur verið eitt af verkefnum sjóðsins, en með þessari tillögu er tryggt að auknir fjármunir renna til verkefnisins. Árleg framlög sjóðsins til sameiningar sveitarfélaga hafa að jafnaði numið um 300 milljónum króna síðustu 10 árin eða svo og því er um verulega aukningu að ræða, sem hefur á tímabili áætlunarinnar talsverð áhrif til lækkunar á tekju- og útgjaldajöfnunarframlög sjóðsins. Viðræður um mögulega aðkomu ríkisins að fjármögnun þessa verkefnis eru fyrirhugaðar.

Einnig er gert ráð fyrir að haldið verði eftir samtals 1.300 milljónum kr. af þeim framlögum skv. d-lið 11. gr. laganna og 13. gr. laganna sem renna skulu til sveitarfélaga á sex ára tímabili, til að koma til móts við ofgreiðslur úr Jöfnunarsjóði á tímabilinu 2013-2018 eins og fjallað er nánar um í skýringum við 9. gr. laganna. Samkvæmt áætlun Jöfnunarsjóðs verður árlega haldið eftir 139,6 milljónum kr. af framlagi skv. 13. gr. laganna og 93 milljónum kr. af framlagi skv. d-lið 11. gr laganna þangað til staða fasteignasjóðs verður jöfnuð út. Verða heildarframlög skv. nefndum ákvæðum til allra sveitarfélaga lækkuð sem því nemur. Það kann þó að vera að á einhverjum þeirra ára sem um ræðir verði haldið verði eftir hærri upphæð ef tilefni þykir til, t.d. tekjur sjóðsins verða óvenju miklar eða þörf er á sérstöku framlagi úr fasteignasjóð. Heildaráhrif frumvarpsins á sveitarfélög verða þá þau að framlög úr jöfnunarsjóði, önnur en sameiningarframlög, kunna að lækka um 937 milljónir kr. næstu sex árin, og síðan 700 milljónir næstu níu árin, eða samtals 11.922 milljónir króna á næstu 15 árum.“

Samband íslenskra sveitarfélaga mun að sjálfsögðu skila umsögn um frumvarpið. Gera má ráð fyrir að ekki verði gerðar miklar efnislegar athugasemdir við ákvæði frumvarpsins, enda kom sambandið að gerð þess. Í umsögninni verður því einkum lögð áhersla á að ríkið komi að fjármögnun þeirra skuldbindinga sem lagðar eru á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í frumvarpinu, annars vegar vegna sameiningarframlaga og hins vegar vegna uppgjörs í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli Grímsnes- og Grafningshrepps gegn íslenska ríkinu.

Bent skal á að sambandið hefur veitt umsögn um tillögu að reglum um sameiningu sveitarfélaga, þar sem fjallað er um nauðsyn þess að ríkið komi að fjármögnun sameiningarframlaga. Jafnframt hefur stjórn sambandsins ítrekað ályktað um að ríkið verði að koma inn með nýtt fjármagn til að greiða kröfur í samræmi við niðurstöður fyrrgreinds dómsmáls.