Umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og sveitarstjórnarlögum

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur skilað inn umsögn sína á 391. máli sem nú liggur fyrir Alþingi, um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og sveitarstjórnarlög.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis umsögn sína um frumvarp um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og sveitarstjórnarlög, sem nú liggur fyrir Alþingi. Markmið frumvarpsins er að styrkja lagagrundvöll Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og eyða réttaróvissu sem skapaðist í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 14. maí sl. Í málinu var íslenska ríkið dæmt til að greiða Grímsnes- og Grafningshreppi bætur vegna þess að framsal löggjafans á heimild til að fella niður lögbundna tekjustofna með reglugerð var ekki talin standast lagaáskilnaðarákvæði 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Frumvarpið er samið í ágætu samráði við sambandið og við gerð þess var farið ítarlega yfir það regluverk sem gildir um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og er í því lagt til að skerpt verði á allmörgum atriðum á lagastoð þeirra reglna sem hafa áhrif á framlög til sveitarfélaga.

Afstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga er sú að þær breytingar á III. kafla laganna, sem lagðar eru til í frumvarpinu, séu nauðsynlegar og til þess fallnar að koma í veg fyrir frekari réttaróvissu. Sambandið bendir á að umrætt dómsmál, sem varðaði í allt fimm sveitarfélög, leiðir að óbreyttu til þess að 1.300 m.kr., af því fjármagni sem jöfnunarsjóður hefði ella til ráðstöfunar, verður ráðstafað til þess að greiða áfallnar kröfur umræddra sveitarfélaga á hendur ríkissjóði. Kveðið er á um þessa ráðstöfun í b.-lið 10. gr. frv. Umfang þessa tjóns undirstrikar mikilvægi þess að fyrirbyggja frekari dómkröfur á hendur ríkinu vegna hugsanlegra ágalla á lagagrundvelli sjóðsins.

Við gerð frumvarpsins hafði sambandið verulega fyrirvara við ákvæði til bráðabirgða sem heimila ráðstöfun fjármuna úr jöfnunarsjóði til þess að fjármagna sameiningar sveitarfélaga og bótagreiðslur íslenska ríkisins vegna dóms Hæstaréttar í máli Grímsnes- og Grafningshrepps gegn ríkinu. Um þessi ágreiningsefni vísast m.a. til eftirfarandi:

  1. Bókunar stjórnar sambandsins frá 7. júní 2019:

[....]. Stjórn sambandsins leggur áherslu á að dómþoli í málinu er íslenska ríkið. Í ljósi niðurstöðu dómsins og forsendna hans er mikilvægt að dómurinn leiði ekki til skerðingar á lögbundnum framlögum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til annarra sveitarfélaga. Stjórnin telur jafnframt vert að undirstrika að dómurinn varðar eingöngu jöfnunarframlög sem tengjast annars vegar tekjutapi vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti og hins vegar vegna reksturs grunnskóla. Jafnframt leggur stjórnin áherslu á að náið samstarf verði á milli ráðuneytis sveitarstjórnarmála og sambandsins um úrbætur á lagaumhverfi jöfnunarsjóðs sem hafi það að markmiði að eyða óvissu um lagagrundvöll sjóðsins.

  1. Samþykktar aukalandsþings sambandsins frá 6. september 2019:

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga haldið 6. september 2019 samþykkir að mæla með því að Alþingi samþykki fyrirliggjandi þingsályktunartillögu um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019-2023. Í tillögunni er gert ráð fyrir veglegum fjárhagslegum stuðningi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við sameiningar sveitarfélaga og því er mikilvægt að ríkissjóður veiti sérstök fjárframlög til sjóðsins til að fjármagna þann stuðning.

Í umsögninni er undirstrikað að í fyrri sameiningarátökum sem ráðist hefur verið í hafa viðkomandi ríkisstjórnir tryggt auknar fjárveitingar til þess að skapa hvata til þess að sveitarfélög sameinist. Sambandið leggur þunga áherslu á að ríkið leggi nýtt fjármagn í þetta verkefni, með vísan til þess að endurskipulagning sveitarstjórnarstigsins þykir mikilvæg í þjóðhagslegu tilliti, og væntir eindregins stuðnings löggjafans í því máli.

Fulltrúar sambandsins mættu á fund umhverfis- og samgöngunefndar 5. desember sl. og gerðu þar grein fyrir umsögninni.