Frumvarp um breytingar á kosningalögum í Samráðsgátt

Ný kosningalög tóku gildi 1. janúar 2022 og reyndi fyrst á beitingu þeirra í sveitarstjórnarkosningum sem haldnar voru vorið 2022. Við framkvæmd laganna komu í ljós ýmsir vankantar sem nauðsynlegt var að lagfæra við fyrsta tækifæri og er skemmst að minnast mikilla áhrifa hæfisreglu laganna á skipan kjörstjórna.

Í því frumvarpi sem nú er lagt fram í samráðsgátt eru lagðar til ýmsar lagfæringar s.s. á reglum um hæfi kjörstjórnarmanna og kjörstjóra. Hæfisreglan er þrengd þannig að kjörstjórnarmaður telst vanhæfur ef til úrskurðar er mál sem varðar maka hans eða sambúðarmaka, enda sé sambúðin skráð í þjóðskrá, eða þann sem er skyldur honum eða mægður í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur honum með sama hætti við ættleiðingu. Einnig getur kjörstjórnarmaður verið vanhæfur ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.

Frumvarpið í Samráðsgátt.

Einnig er lögð til breyting á ákvæði um kjördag í sveitarstjórnarkosningum sem felur í sér að kosningar fari almennt fram viku síðar en kveðið er á um í gildandi lögum, þ.e. þriðja laugardag í maí sem ekki ber upp á hvítasunnuhelgi. Sú breyting skýrist einkum af því að erfitt sé að fá hæft starfsfólk til vinnu á kjörstöðum á meðan prófatímabil stendur yfir í háskólum.

Helstu breytingar

Á meðal annarra helstu breytinga má nefna eftirfarandi:

  • ákvæði um málshöfðunarfrest og flýtimeðferð vegna ákvarðana úrskurðarnefndar kosningamála,
  • reglu um fresti þegar alþingiskosningar eru í kjölfar þingrofs
  • ákvæði um gögn sem fylgja skulu framboðslista og úthlutun listabókstafs í kosningum til sveitarstjórna
  • ákvæði um framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu.
  • nýmæli um endurtalningu atkvæða og lagt til að við endurtalningu fari fram næmisgreining
  • uppkosning er skilgreind
  • breyting á reglum um skil á kosningaskýrslum.
  • breyting á reglum um rafræna kjörskrá
  • reglugerðarheimildir fyrir nánari skýringum á óleyfilegum kosningaáróðri og kosningaspjöllum sem og um umboðsmenn stjórnmálaflokka.
  • Þá eru lagðar til ýmsar óhjákvæmilegar breytingar s.s. vegna breyttra heita á sveitarfélögum.

Skipting kostnaðar

Vert er að nefna sérstaklega að lögð er til breyting á 139. gr. laganna um skiptingu kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga við kosningar. Lagt er til að greinin verði svohljóðandi:

Kostnaður við sveitarstjórnarkosningar greiðist af sveitarfélögum nema annað sé tekið fram í lögum þessum. Kostnaður landskjörstjórnar svo sem vegna kjörgagna og áhalda er hún lætur kjörstjórnum í té vegna sveitarstjórnarkosninga greiðast úr ríkissjóði.

Kostnaður við aðrar kosningar samkvæmt lögum þessum og annar kostnaður við framkvæmd laga þessara, s.s. kostnaður vegna úrskurðarnefndar kosningamála og landskjörstjórnar, greiðist úr ríkissjóði. Kostnaður vegna atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, skal greiddur úr ríkissjóði en fari atkvæðagreiðsla fram á grundvelli 2. tölul. 2. mgr. 69. gr. ber viðkomandi sveitarfélag kostnaðinn.

Ráðherra skal í reglugerð, að fengnum tillögum landskjörstjórnar og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, kveða á um fjárframlög ríkisins til sveitarfélaga vegna hlutverks þeirra við framkvæmd annarra kosninga en sveitarstjórnarkosninga. Jafnframt skal þar eftir samráð við Þjóðskrá Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga kveðið á um skiptingu kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga vegna þeirra verkefna sem Þjóðskrá Íslands fer með og nauðsynleg eru við framkvæmd kosninga.

Í skýringum við greinina kemur eftirfarandi m.a. fram:

  • Lagt er til að áfram gildi sú meginregla að kostnaður við aðrar kosningar en kosningar til sveitarstjórna greiðist úr ríkissjóði. Jafnframt er óbreytt sú meginregla að kostnaður við sveitarstjórnarkosningar greiðist af sveitarfélögunum sjálfum eins og verið hefur í tíð eldri kosningalaga.
  • Lögð er til sú breyting að fleiri kostnaðarliðir er falla til við sveitarstjórnarkosningar verði greiddir af ríkissjóði en kveðið er á um í gildandi lögum.
    • Kostnaður vegna kjörgagna og áhalda sem landskjörstjórn lætur kjörstjórnum í té vegna sveitarstjórnarkosninga skal greiðast úr ríkissjóði. Samkvæmt 14. gr. kosningalaga útbýr landskjörstjórn kjörgögn, önnur en kjörseðla fyrir sveitarstjórnarkosningar, sbr. 2. mgr. 64. gr. laganna. Í þágu samræmis og öryggis við framkvæmd kosninga þykir eðlilegt að ríkissjóður útvegi umrædd gögn og beri af þeim kostnað.
    • Hins vegar er lagt til að þrátt fyrir að kostnaður við aðrar kosningar en sveitarstjórnakosningar greiðist úr ríkissjóði, skuli kostnaður vegna atkvæðagreiðslu utan kjörfundar sem fer fram á grundvelli 2. töluliðar 2. mgr. 69. gr. vera borinn af sveitarfélagi. Slík atkvæðagreiðsla fer fram að ósk og frumkvæði viðkomandi sveitarfélags sem nýtir til þess sína eigin innviði.
    • Í þriðja lagi er lagt til að ráðherra skuli setja reglugerð um fjárframlög ríkisins til sveitarfélaga vegna hlutverks þeirra við framkvæmd annarra kosninga en sveitarstjórnarkosninga og um skiptingu kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga vegna þeirra verkefna sem Þjóðskrá Íslands fer með og nauðsynleg eru við framkvæmd kosninga. Þetta atriði mun þarfnast samtals milli ríkis og sveitarfélaga en eftir er að kostnaðarmeta frumvarpið sbr. 129. gr. sveitarstjórnarlaga.