24. nóv. 2016

Frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur sent út til umsagna drög að frumvarpi til laga um skipulag haf- og strandsvæða, sjá hér

Sambandið hefur um langt skeið kallað eftir því að sett verði löggjöf um strandsvæðaskipulag en aukning hefur verið í starfsemi á haf og strandsvæðum og vaxandi eftirspurn er eftir athafnasvæðum, m.a. vegna fiskeldis og efnistöku. 

Í skipulagslögum nr. 123/2010, er eingöngu gert ráð fyrir gerð skipulagsáætlana innan lögsagnarumdæma sveitarfélaga, þ.e. á landi og að ytri mörkum netlaga, og því ekki að öðru leyti á haf- og strandsvæðum. Til þess að hægt verði að skipuleggja betur nýtingu og eftir atvikum verndun slíkra svæða er mikilvægt að sett verði löggjöf á þessu sviði, eins og kveðið er á um í landsskipulagsstefnu, sem Alþingi samþykkti fyrr á þessu ári.

Í frumvarpinu er lögð m.a. áhersla á fjölbreytta nýtingu á haf- og strandsvæðum sem byggist á heildarsýn, vistkerfisnálgun, náttúruvernd og sjálfbærri þróun. Þá er lagt til í frumvarpinu að heildarstefna um skipulag verði mótuð í landsskipulagsstefnu þar sem lagður verður grundvöllur að gerð strandsvæðisskipulags á ákveðnum strandsvæðum. Lagt er til að ráðherra skipi svæðisráð með fulltrúum viðkomandi ráðuneyta, aðliggjandi sveitarfélaga og Sambandi íslenskra sveitarfélaga og að svæðisráðið beri ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags á viðkomandi strandsvæði.

Frumvarpsdrögin voru rædd á fundi skipulagsmálanefndar sambandsins fyrr í þessum mánuði. Á grundvelli þeirrar umfjöllunar telur sambandið einkum ástæðu til þess að rýna eftirfarandi atriði nánar við gerð umsagnar:

  1. Staða hafnarsvæða gagnvart strandsvæðaskipulag
  2. Skörun svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana við strandsvæðaskipulag innan lögsögu sveitarfélaga
  3. Lausn ágreiningsmála um framangreind atriði
  4. Fjármögnun strandsvæðaskipulags og breytinga á því.

Mikilvægt er að árétta að þótt sett verði lög um skipulag haf- og strandsvæða hefur sú lagasetning engin áhrif á gildandi skipulagsáætlanir sveitarfélaga.

Umsögnum um frumvarpið skal skila í síðasta lagi 9. desember nk. á netfangið postur@uar.is.

Samband íslenskra sveitarfélaga hvetur sveitarfélögin til þess að kynna sér frumvarpsdrögin og senda inn athugasemdir eftir því sem tilefni þykir til. Fyrirspurnum og ábendingum má beina til Guðjóns Bragasonar, sviðsstjóra lögfræði- og velferðarsviðs, gudjon.bragason@samband.is, eða til Vigdísar Häsler lögfræðings, vigdis@samband.is.