Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hefur lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Í frumvarpinu er Jöfnunarsjóði sveitarfélaga heimilað, á grundvelli samnings, að ráðstafa framlagi úr fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að upphæð 50 millj. kr. árlega á árunum 2022–2025 til verkefnisins Römpum upp Ísland , í þeim tilgangi að bæta aðgengi fyrir fatlað fólk á landsvísu.
Í ljósi þess að framlög vegna verkefnisins Römpum upp Ísland munu ekki renna með beinum hætti til tiltekins sveitarfélags og verkefnið mun ekki fela í sér uppsetningu á römpum eingöngu við fasteignir eða svæði sem eru á vegum sveitarfélaga, eins og áskilið er í 1. og 3. mgr. 13. gr. b laga um tekjustofna sveitarfélaga, er nauðsynlegt að leggja fram þetta frumvarp.
Frumvarpið er lagt fram að beiðni innviðaráðuneytisins vegna verkefnisins Römpum upp Ísland en tilgangur þess er að bæta aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitingahúsum á Íslandi með því að koma upp römpum eða tryggja aðgengi með öðrum hætti. Markmið verkefnisins er að byggja 1.000 rampa um allt land á næstu fjórum árum. Um er að ræða mikilvægt jafnréttismál og brýnt að hið opinbera geti komið að stuðningi þess. Í skýringum við frumvarpið er áréttað að um er að ræða heimild en ekki skyldu til að veita umrætt framlag og jafnframt er gert ráð fyrir að framlagið muni byggjast á samningi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við þá aðila sem halda utan um verkefnið og að í slíkum samningi verði fjallað um skyldur og réttindi aðila.
- Rampur.is - vefsíða verkefnisins
- Frumvarpið á vef Alþingis