Framtíðarsýn ESB fyrir landsbyggðir Evrópu

Evrópusambandið kynnti á dögunum framtíðarsýn ESB fyrir landsbyggðir álfunnar. Af því tilefni sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, að það séu landsbyggðirnar sem binda saman samfélög Evrópu og þar sé að finna séreinkenni okkar og efnahagsleg tækifæri.

Framtíðarsýnin byggir á 4 meginatriðum:

  1. Öflugri landsbyggðir með virkri þátttöku íbúa og þjónustu sem er sniðin að þörfum hvers samfélags.
  2. Samtengdari landsbyggðir þar sem bættar samgöngur og notkun stafrænna lausna gegna lykilhlutverki.
  3. Aðlögunarhæfni sem gerir samfélögum kleift að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga og efnahagslegum áföllum.
  4. Blómlegar landsbyggðir með áherslu á fjölbreytt mannlíf og atvinnulíf.

Í framhaldinu mun framkvæmdastjórn ESB kynna aðgerðir sem eiga að tryggja framgang framtíðarsýnarinnar. Þar má sem dæmi nefna áform um s.k. Rural Revitalisation Platform sem er ætlað að styðja við íbúa, fyrirtæki og stofnanir við sókn þeirra í sjóði ESB.

Með nýrri framtíðarsýn er ESB auk þess að ítreka mikilvægi landsbyggðanna, ekki einungis fyrir þá sem þar búa heldur fyrir allt samfélagið. Þess má geta að 30% íbúa Evrópu búa á landsbyggð.

Þá er með framtíðarsýninni verið að undirstrika þau fjölmörgu tækifæri sem landsbyggðir Evrópu hafa upp á að bjóða, en að þar er einnig að finna krefjandi áskoranir:

  1. Íbúum landsbyggða Evrópu er hættara við að verða fátækt og félagslegri einangrun að bráð (22,4%).
  2. Verri aðgangur að þjónustu. Til dæmis má nefna að íbúar landsbyggða Evrópu þurfa að jafnaði að ferðast 21,5 km til að sækja sér læknisþjónustu á meðan að fjarlægðin er 3,5 km fyrir íbúa í borgum.
  3. Ójafnari atvinnuþátttaka karla og kvenna, þar sem hlutfallið er 80% á móti 67% (13%) meðal íbúa landsbyggða Evrópu á meðan það er 78% á móti 68% (10%) í borgum.

Hlutfall íbúa sem búa yfir lágmarks stafrænni þekkingu er mun lægra meðal íbúa landsbyggða Evrópu samanborið við þá sem búa í borgum, eða 48% á móti 62%.