Framkvæmdastjóri sambandsins ræddi við mótmælendur

Foreldrar leikskólabarna boðuðu til mótmæla við húsnæði Sambands íslenskra sveitarfélaga í morgun vegna verkfalla félagsmanna BSRB í 29 sveitarfélögum.

Mynd: Vísir.is/VILHELM

Um 100 manns mættu og tók Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdastjóri sambandsins, vel á móti mótmælendum og bauð þeim upp á kaffi, kex og safa. Þá ræddi hann bæði við skipuleggjendur mótmælanna og aðra sem voru á svæðinu. Ítrekaði Arnar Þór að sambandið lítur stöðuna mjög alvarlegum augum og sýnir því mikinn skilning að verkföllin séu erfið og taki mikið á bæði foreldra og börn.

Sambandið leggur allt kapp á að leysa kjaradeiluna sem allra fyrst og hefur lagt fram mjög sanngjarnt tilboð til félagsmanna bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB, þar sem áherslan er á að lyfta lægst launuðu hópunum. Inniheldur tilboðið meðal annars 50.000 kr. til 60.000 kr. hækkun lægstu launa á mánuði frá 1. apríl 2023, og nær sú hækkun til um helmings félagsmanna.