Heimili og skóli – landssamtök foreldra og SAFT skrifuðu nýlega undir samstarfssamning við Fjarðabyggð og Fjarðaforeldra.
Í samningnum felst að skólasamfélagið í Fjarðabyggð fái árlega SAFT fræðslu um jákvæða og örugga netnotkun barna og unglinga ásamt fræðslu og stuðning við bekkjarfulltrúa og foreldrafélög í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins. Var þetta eins konar tilraunaverkefni sem tókst mjög vel og hefur verið ákveðið að festa þetta fyrirkomulag í sessi. Það verður því farið eins að í Fjarðabyggð nú í vetur og vonandi komandi misseri.
Með því að sveitarfélög geri slíkan samning við Heimili og skóla þá fæst veruleg hagræðing fyrir alla aðila og um leið trygging fyrir því að allir fá ákveðna grunnfræðslu í sveitafélaginu, sem tryggir jöfnuð fyrir nemendur og foreldra. Allir fá sambærilega fræðslu sem eykur líkur á betri árangri og sveitarfélagið gefur jafnframt skýr skilaboð um mikilvægi þessa forvarnastarfs í þágu farsældar barna, foreldrasamstarfs og netöryggis.
Heimili og skól og SAFT hafa tekið upp samtal við önnur sveitarfélög um að feta þessa sömu leið og gera fastan samning um fræðslu til barna, ungmenna, foreldra og starfsmenn skóla. Undirtektir hjá forsvarsmönnum fræðslumála í sveitarfélögum hafa verið góðar og eru samtökin nú á ferð um landið til að kynna hugmyndina frekar og ganga til samninga í kjölfarið, öllum til ávinnings.