Fræðslu- og umræðufundir um menntun fyrir alla og menntastefnu 2030

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að hefja mótun nýrrar mennastefnu til 2030. Leiðarljós nýju stefnunnar verður gæðamenntun fyrir alla á öllum skólastigum. Stefnumótuninni verður hrundið af stað í haust með röð fræðslu- og umræðufunda um land allt.

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að hefja mótun nýrrar mennastefnu til 2030. Leiðarljós nýju stefnunnar verður gæðamenntun fyrir alla á öllum skólastigum. Gengist verður fyrir röð fræðslu- og umræðufunda um land allt, sem lið í stefnumótuninni.

Nýrri menntastefnu er ætlað að takast á við þær áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir í mennta- og velferðarmálum. Auk þess verða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun felld að menntakerfi landsmanna.

Eitt af markmiðum nýrrar menntastefnu verður að tryggja að allir í skólasamfélaginu líti á skólastarf án aðgreiningar sem grundvöll gæðamenntunar í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Stefnumótuninni verður fylgt eftir með fræðslu- og umræðufundum um menntun fyrir alla. Farið verður um allt land og fundað á samtals 23 stöðum.

Tveir fundir verða haldnir á hverjum stað; sá fyrri með forsvarsmönnum sveitarfélaga og ábyrgðaraðilum málaflokka mennta-, velferðar- og heilbrigðismála ásamt fulltrúum aðila í stýrihópi. Fundartími er kl. 10:00 - 12:00.

Síðari fundurinn verður með fulltrúum kennara og frístundafólks, stjórnendum leik-, grunn- og framhaldsskóla, fulltrúum foreldra, skóla- og félagsþjónustu og forstöðumönnum skóla-, fjölskyldu- og frístundamála í heimabyggð. Fundartími síðari fundarins er kl. 13:00 - 16:00.

Boðað er til samráðs um mótun nýrrar menntastefnu með þá sannfæringu í brjósti, að haghafar að gæðamenntun fyrir alla á öllum skólastigum verði, svo vel sé, að taka saman höndum og vinna sameiginlega að stefnunni í þágu allra nemenda.

Framkvæmdastjórum sveitarfélaga, formönnum skólanefnda, formönnum félagsmálanefnda, fræðslustjórum, félagsmálastjórum og forstöðumönnum skóla-, fjölskyldu- og frístundamála hefur borist kynningarbréf um málið.

Nálgast má bréfið á hlekk hér að neðan. Mennta- og menningarmálaráðuneyti boðar svo til hvers fundar er nær dregur.

Ny-menntastefna-fundarod