Fræðsla í stað samþykkis

Með breytingu á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018 á málefnasviði félags- og barnamálaráðherra, þurfa sveitarfélög ekki lengur að leita eftir samþykki skjólstæðings fyrir öflun og vinnslu gagna þegar veitt er þjónusta á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, þ.m.t. fjárhagsaðstoð, húsnæðismál o. fl.

Með breytingu á lögum um persónuvernd og vinnslupersónuupplýsinga, nr. 90/2018 á málefnasviði félags- og barnamálaráðherra, þurfa sveitarfélög ekki lengur að leita eftir samþykki skjólstæðings fyrir öflun og vinnslu gagna þegar veitt er þjónusta á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, þ.m.t. fjárhagsaðstoð, húsnæðismál o. fl.

Í þeim tilvikum þar sem stjórnvald þarf ekki að fá samþykki fyrir því að vinna persónuupplýsingar, hvílir rík fræðsluskylda á stjórnvaldi. Hægt er að veita fræðsluna á ýmsan hátt og heimilt er að nýta sér tækni sem er fyrir hendi til að koma fræðslunni á framfæri. Fyrst og fremst er þó lögð áhersla á að fræðslan sé á gagnorðu, gagnsæju, skiljanlegu og aðgengilegu formi.

  • Mikilvægt er því að sveitarfélög endurskoði sína vinnuferla og ákvæði í reglum sem sveitarstjórn setur.
  • Tryggt þarf að vera að ekki sé lengur óskað eftir samþykki frá skjólstæðingum þegar um er að ræða lögbundna skyldu sveitarfélags til að veita þjónustu.
  • Sveitarfélög þurfa að tryggja að fræðsla um vinnslu persónuupplýsinga sé fullnægjandi.
  • Eðlilegt er að slík endurskoðun fari fram í samstarfi við persónuverndarfulltrúa sveitarfélagsins.

Ástæða lagabreytingarinnar er að samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga geta stjórnvöld sjaldan byggt á samþykki við vinnslu persónupplýsinga þar sem til staðar er valdaójafnvægi milli stjórnvalda og skjólstæðings. Af því leiðir að samþykkið getur ekki talist óþvingað og því ekki gilt.

Einnig er rétt að benda á að samkvæmt nýju ákvæði 57. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga ber umsækjendum, opinberum aðilum og einkaaðilum að veita umbeðnar upplýsingar án endurgjalds búi þeir yfir þeim. Mikilvægt er að sveitarfélög séu meðvituð um þessa skyldu allra aðila til að veita endurgjaldslaust upplýsingar í tengslum við félagsþjónustu sveitarfélaga.