Hugum að vellíðan og verndandi þáttum í lífi barna og ungmenna

Mörg áhugaverð erindi voru flutt við setningu Forvarnardagsins í Borgarholtsskóla 4. október síðastliðinn.

Framsögufólk á fundinum ásamt nokkrum nemendum úr Borgarholtsskóla. Mynd: Anna Ingadóttir.

Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla, bauð gesti velkomna. Forseti Íslands, Guðni Th. talaði um mikilvægi þess að huga að heilsunni og velja rétt, strax á unglingsárunum. Alma Möller landlæknir tók næst til máls og lagði áherslu á í sínu erindi hve mikilvægt það er að leita sér hjálpar á erfiðum stundum og benti á í því samhengi á síðuna Ertu okei? sem má finna hér. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, talaði m.a. um mikilvægi svefns, Margrét Lilja Guðmundsdóttir frá Planet Youth fór m.a. yfir þá verndandi þætti sem eru svo mikilvægir við vellíðan barna og ungmenna. Þessir verndandi þættir eru, vímulaus lífstíll, samvera með fjölskyldu, svefn, hollt matarræði, félagsleg tengsl, hreyfing og þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Að lokum sögðu kennarar og nemendur ú Borgarholtsskóla frá heilsuviku skólans og hvernig þau flétta þema forvarnardagsins saman við þá viku. Einnig sýndu nemendur myndband sem þeir fengu verðlaun fyrir á Forvarnardegi 2022.

Enn er hægt að taka þátt

Enn er hægt að taka þátt í verðlaunaleik Forvarnardagsins, eða til 21. október n.k.. Nemendur í 9. bekk grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskóla geta tekið þátt ef skólinn þeirra er þátttakandi í Forvarnardeginum. Verðlaun úr leiknum verða afhent af forseta Íslands á Bessastöðum í nóvember. Frekari upplýsingar má sjá hér.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ásamt nokkrum ungmennum úr Borgarholtsskóla.