Forvarnardagurinn 2021

Miðvikudaginn 6. október 2021 verður Forvarnardagurinn haldinn í flestum grunn- og framhaldsskólum landsins.

Frá setningu Forvarndardagsins 2021.

Markmið Forvarnardagsins er að vekja athygli á mikilvægum þáttum í forvarnarstarfi sem snúa að ungu fólki og er sjónum sérstaklega beint að unglingum í 9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Nemendur ræða meðal annars um hugmyndir sínar og tillögur um samverustundir með fjölskyldu og skipulagt íþrótta- og tómstundastarf, en þetta eru á meðal verndandi þátta gegn áhættuhegðun. Nemendur geta einnig svarað spurningu á vefsíðu Forvarnardagsins, www.forvarnardagur.is, dregið verður úr réttum svörum 21. október nk. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðar á árinu.  

Árið 2021 er sjónum sérstaklega beint að andlegri líðan ungmenna. Samkvæmt rannsóknum hafa ýmsir þættir neikvæð áhrif á andlega líðan og hefur verið bent á neyslu unglinga á orkudrykkjum og nikótíni og of lítinn svefn.

Forvarnir er viðvarandi verkefni sem snýr bæði að almenningi og þeim sem bera ábyrgð á samfélagslegum ákvörðunum og stefnumörkun. Forvarnardagurinn er haldinn víða erlendis að íslenskri fyrirmynd enda hefur góðum árangri verið náð hér á landi. Sem dæmi má nefna að fyrir rúmum 20 árum sögðust 42% nemenda í 10. bekk hafa neytt áfengis síðustu 30 daga í könnuninni „Ungt fólk“, en árið 2021 var talan komin í 6% (sjá mynd hér að neðan) og árið 2020 höfðu 53% nemenda í framhaldsskólum aldrei orðið ölvaðir en árið 200o voru það aðeins 18% nemenda.

Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands. Aðrir samstarfsaðilar að Forvarnardeginum eru Embætti landlæknis, sem sér um verkefnisstjórn dagsins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Samfés, Heimili og skóli – landsamtök foreldra, Ungmennafélag Íslands, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Skátar, Rannsóknir og greining og SAFF – Samstarf félagasamtaka í forvörnum.

Á heimasíðu Forvarnardagsins er meðal annars að finna fróðleik og myndbönd um forvarnir www.forvarnardagur.is

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, við setningu Forvarnardagsins 2021.