Forvarnardagurinn 2019

Miðvikudaginn 2. október verður Forvarnardagurinn 2019 haldinn í flestum grunn- og framhaldsskólum landsins. Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti og þá er sjónum sérstaklega beint að unglingum í 9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla.

Á Forvarnardeginum ræða nemendur um hugmyndir sínar og tillögur um æskulýðs- og íþróttastarf og fjölskyldulíf sem geta eflt varnir gegn vímuefnum. Þau vinna í hópavinnu og skrá hugmyndir sínar; síðan er svörum safnað saman til að finna samnefnara í hugmyndum þeirra. Þá gefst nemendum sem fæddir eru á árunum 2003-2005, kostur á að taka þátt í stuttmyndasamkeppni þar sem þau vinna með þá þætti sem dregið geta úr áhættuhegðun. Skilafrestur í keppninni rennur út að kvöldi 11. nóvember nk. og verðlaun verða veitt fyrir þrjár stuttmyndir: bestu myndina, þá skemmtilegustu og þá frumlegustu. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðar á árinu.

Embætti landlæknis stendur að deginum í samstarfi við embætti forseta Íslands,Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og ólympíusamband Íslands, Skátana, Ungmennafélag Íslands, Rannsóknir og greiningu og Samstarf félagasamtaka í forvörnum.

Myndirnar hér að neðan tók Ragna Ingólfsdóttir starfsmaður ÍSÍ á kynningarfundi um forvarnardaginn sem haldinn var 30. september sl. 

Forvarnardagurinn1Guðni Th. Jóhannesson mætir á fundinn í Fellaskóla.

Forvarnardagurinn2

Nemendur Fellaskóla tóku vel á móti Aldísi Hafsteinsdóttur, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga er hún mætti á kynningarfundinn í Fellaskóla.

Forvarnardagurinn3