Formaður hvetur til samstöðu sveitarfélaga í kjaramálum

„Það hefur árað vel hér á landi að undanförnu og þegar horft er til síðustu ára blasir við að fjárhagur sveitarfélaga hefur styrkst og ársreikningar 2018 vitna um góðan rekstur og ágæta afkomu víðast hvar,“

„Það hefur árað vel hér á landi að undanförnu og þegar horft er til síðustu ára blasir við að fjárhagur sveitarfélaga hefur styrkst og ársreikningar 2018 vitna um góðan rekstur og ágæta afkomu víðast hvar,“ sagði Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga í ávarpi sínu við upphaf Fjármálaráðstefnu sambandsins á Hilton hótelinu í Reykjavík í morgun. Uppselt er á ráðstefnuna en hana sækir sveitarstjórnarfólk alls staðar af landinu.

Aldís sagði að þótt vel hefði gengið á undanförnum árum væru blikur á lofti. Góðæri undanfarinna ára virtist að baki og sagan segði okkur að í kjölfarið megi eiga von á bakslagi. Fréttir um óvissu og uppsagnir heyrast því miður á hverju ári en eins og svo oft áður hér á landi sé töluverð óvissa framundan í efnahagsmálum. „Það er sannarlega áskorun við þessi skilyrði að ganga frá fjárhagsáætlun fyrir komandi ár. Tekjuöflun er óviss en eitt er víst að háværar kröfur um aukin útgjöld láta ekki á sér standa,“ sagði Aldís.

Hún sagði kjarasamninga meðal helstu óvissuþátta og undirstrikaði mikilvægi þess að sveitarstjórnarmenn standi þétt saman þegar kemur að kjaramálum. Hún minnti á að sveitarfélög landsins hafi gert samninga við sambandið um að það hafi fullnaðarumboð til kjarasamningsgerðar fyrir þeirra hönd og því séu afskipti einstakra sveitarfélaga að kjaraviðræðum óheimil. Sagði hún það hafa valdið miklum vonbrigðum að þrátt fyrir viðvaranir og beiðnir til sveitarfélaga um að grípa ekki inn í yfirstandandi kjaraviðræður þá hafi örfá þeirra samt gert það.

Aldís sagði stjórn sambandsins ekkert val hafa þegar kemur að viðbrögðum við br0tum á samningi um kjarsamningsumboðið og því hafi viðkomandi sveitarfélögum sem völdu að brjóta samning sveitarfélaga verið tilkynnt að nú þurfi þau að semja beint og gera sjálfstæða kjarasamninga við viðkomandi stéttarfélög, án aðkomu sambandsins. Sagði hún þetta erfiða en því miður algjörlega nauðsynlega aðgerð í þágu hagsmuna heildarinnar.

„Ég vil í þessu sambandi minna á þá yfirlýsingu sem gefin var í tengslum við gerð lífskjarasamninganna á hinum almenna vinnumarkaði þar sem sveitarfélög og fyrirtæki þeirra voru hvött til að hækka ekki gjaldskrár á þessu ári, 2019, og að hækka ekki umfram 2,5% á því næsta. Það er rétt að árétta þetta hér því ábyrgð okkar sveitarstjórnarmanna er mikil þegar kemur að samningum á vinnumarkaði og allar hækkanir umfram þessi 2,5% munu mælast illa fyrir.“

Hún gagnrýndi áform ríkisins um sérstakan urðunarskatt og sagði að ef hann komi að fullu til framkvæmda muni það þýða 12 þúsund króna viðbótarútgjöld á hvert meðalheimili. Þessu verði óhjákvæmilega ýtt á notendur því sveitarfélögin hafi ekki bolmagn til að taka þetta á sig. Stjórn sambandsins hafi gagnrýnt þessi áform og kallað eftir því að samráð verði haft um slík mál en ekki einhliða tilskipanir eins og í þessu tilviki.

Hún fjallaði einnig um fyrirliggjandi hugmyndir um sameiningu sveitarfélaga og sagði að öflug byggðastefna yrði að byggja á sterkum sveitarfélögum og sagði hún að hart yrði gengið eftir því af hálfu sambandsins ganga fast eftir því að aukin framlög úr Jöfnunarsjóði til þessa verkefnis sem lofað hefði verið skiluðu sér.