Forgangsmarkmið samþykkt vegna heimsmarkmiðanna

Ríkisstjórn Íslands samþykkti nýlega tillögur verkefnastjórnar að forgangsröðun á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna (S.þ.). Tillögurnar eru liður í undirbúningi stjórnvalda vegna málsins, en innleiðingu á sem kunnugt er að vera lokið á árinu 2030. Endanlegar ákvarðanir um aðkomu sveitarfélaga að verkefninu verða teknar á XXXII. landsþingi þeirra, sem fram fer í september nk.

Ríkisstjórn Íslands samþykkti nýlega tillögur verkefnastjórnar að forgangsröðun á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna (S.þ.). Tillögurnar eru liður í undirbúningi stjórnvalda vegna málsins, en innleiðingu á sem kunnugt er að vera lokið á árinu 2030. Endanlegar ákvarðanir um aðkomu sveitarfélaga að verkefninu verða teknar á XXXII. landsþingi þeirra, sem fram fer í september nk.

Af 169 undirmarkmiðum leggur verkefnastjórnin til 65 sem áherslumarkmið Íslands. Með því að leggja áherslu á tiltekin markmið eru stjórnvöld að velja þau mikilvægustu úr m.t.t. heildarhagsmuna þjóðarinnar og alþjóðlegra skuldbindinga.

Flest aðildarríki S.þ. fara þessa leið, enda æði misjafnt hve miklu máli hvert og eitt af hinum 17 markmiðum og 169 undirmarkmiðum skiptir í hverju aðildarríki.

Samhliða tillögunum, sem voru samþykktar á ríkisstjórnarfundi þann 26. maí sl., var stöðuskýrsla verkefnastjórnarinnar einnig lögð fram. Auk þess sem gerð er almenn grein fyrir stöðu hinna 17 heimsmarkmiða hér á landi, lýsir skýrslan því hvernig staðið var að valinu á áherslumarkmiðunum 65.

Einnig er fjallað um árangursmælingar og aðra tölfræði vegna innleiðingar heimsmarkmiðanna, en S.þ. leggja verulega áherslu á alþjóðlega samræmda og samanburðarhæfa mælikvarða í þeim efnum. Hagstofa Íslands heldur utan um þennan þátt innleiðingarinnar hér á landi.

Þá leggur verkefnastjórnin til að stjórnvöld, þ.e. ríki og Samband íslenskra sveitarfélaga f.h. sveitarfélaganna, vinni að innleiðingu heimsmarkmiðanna hér á landi og að sambandið annist jafnframt upplýsingamiðlun til sveitarfélaga og veiti, þeim sem það vilja, aðstoð til að móta eigin áherslumarkmið.

Endanlegar ákvarðanir um aðkomu sveitarstjórnarstigsins að verkefninu verða teknar á næsta landsþingi sveitarfélaga, en það fer ávallt fram það ár sem sveitarstjórnarkosningar fara fram.

Verkefnastjórnin, sem sett var á fót vorið 2017 og hefur nú lokið störfum. Ný verkefnastjórn mun svo taka við af henni vegna fyrirliggjandi innleiðingar á heimsmarkmiðunum. Samband íslenskra sveitarfélaga átti áheyrnarfulltrúa í fráfarandi verkefnastjórn og mun tilnefna aðalfulltrúa í þá nýju.

Fulltrúar allra aðildarríkja samþykktu heimsmarkmið um sjálfbæra þróun í september 2015 og tók stefnumörkunin gildi fyrir S.þ. áramótin þar á eftir. Eins og áður segir, er stefnt að því að ljúka innleiðingu þeirra á alheimsvísu árið 2030. Mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf eru meginstefið, en markmiðin styðjast jafnframt við allar þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar eða þá félagslegu, efnahagslegu og umhverfislegu.

Hm-stor