Forgangsmál hagsmunagæslu Íslands gagnvart Evrópusambandinu 2020-2021

Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt lista yfir forgangsmál hagsmunagæslu Íslands gagnvart Evrópusambandinu 2020-2021. Á listanum eru mál sem eru í undirbúningi á vettvangi ESB og þar sem íslenskir hagsmunir eru sérstaklega í húfi. Þá eru sum málin lengra komin og bíða upptöku í EES-samninginn.

Tvö stærstu málefnin sem framkvæmdastjórn ESB hefur sett á oddinn eru hinn svokallaði Græni sáttmáli og Stafræn Evrópa. Þetta endurspeglast í forgangslistanum. Aðrir málaflokkar á listanum eru matvælaöryggi, orkumál, samgöngumál, jafnréttismál, fjármálaþjónusta, peningaþvætti, rannsóknir og nýsköpun, lyfjamál, vinnumarkaðurinn, almannatryggingar og samspil sóttvarna og ferðafrelsis.

Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um forgangsmál Íslands tók sambandið undir mikilvægi þess að vel sé fylgst með gangi mála í tengslum við Græna sáttmálann og Stafræna Evrópu. Sambandið lagði einnig áherslu á að vel væri fylgst með framvindu Hringrásarhagkerfisins. Þá óskaði sambandið eftir því að íslensk stjórnvöld komi á fót öflugu samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og aðra hlutaðeigandi aðila með það að markmiði að auka þátttöku sveitarfélaga og fyrirtækja í Samstarfsáætlununum ESB. Ljóst er að þar leynast mörg tækifæri fyrir íslenska aðila, en í því tilliti má t.d. nefna Horizon Europe sem hleypt verður af stokkunum á næsta ári.