ESB hefur sett á fót flokkunarkerfi sem skilgreinir hvort atvinnustarfsemi er sjálfbær eða ekki. Flokkunarkerfið er sagt vera lykilskref í átt að markmiði ESB um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 og brýn aðgerð í aðgerðaáætlun ESB á sviði sjálfbærra fjármála.
Flokkunarkerfið mun að óbreyttu gilda á Evrópska efnahagssvæðinu og því er viðbúið að hún muni hafa töluverð áhrif á Íslandi, þar með talið atvinnustarfsemi og fjárfestingar íslenskra sveitarfélaga.
Með því að samræma skilning fjárfesta á hugtakinu sjálfbær atvinnustarfsemi auðveldar flokkunarkerfið samanburð á milli sjálfbærra fjárfestinga og eflir traust fjárfesta á þeim fjárfestingum sem sagðar eru vera grænar. Flokkunarkerfið mun sömuleiðis sporna við „grænþvotti“, þ.e. koma í veg fyrir að fjárfestingar verði markaðssettar sem grænar án þess að vera það í raun.
Þá munu staðlar ESB fyrir græn skuldabréf og nýtt umhverfismerki ESB fyrir fjármálaafurðir byggja á þessu flokkunarkerfi.
Viðmið fyrir sjálfbæra atvinnustarfsemi
Samkvæmt flokkunarkerfinu telst atvinnustarfsemi sjálfbær ef hún samræmist fjórum meginskilyrðum.
Í fyrsta lagi þarf hún að styðja verulega við eitt eða fleiri af eftirfarandi markmiðum:
- Mótvægisaðgerðum gegn loftslagsbreytingum;
- Aðlögun að loftslagsbreytingum;
- Sjálfbærri notkun og vernd vatns og sjávarauðlinda;
- Markmiðum hringrásarhagkerfisins;
- Mengunarvörnum;
- Vernd og endurheimt líffræðilegs fjölbreytileika og vistkerfa.
Þannig getur fjárfesting ekki talist sjálfbær ef undirliggjandi starfsemi styður ekki verulega við a.m.k. eitt þessara markmiða. Því dugar ekki að atvinnustarfsemi stuðli t.d. að varðveislu landslags ef einhver af ofangreindum sex markmiðum koma ekki við sögu.
Atvinnustarfsemi sem gerir annarri atvinnustarfsemi kleift að styðja við einhvern af þessum sex markmiðum fullnægir þessu skilyrði. Sem dæmi má nefna framleiðslu á vindmylluspöðum. Slík atvinnustarfsemi uppfyllir t.d. markmið i), með því að gera þeim sem rekur vindmyllugarð kleift að styðja verulega við markmiðið, þrátt fyrir að framleiðsla á vindmylluspöðum hafi í för með sér losun gróðurhúsalofttegunda.
Í öðru lagi má atvinnustarfsemi ekki valda umtalsverðu tjóni þegar kemur að þeim sex markmiðum sem tilgreind eru hér að ofan. Sem dæmi má nefna fyrirtæki sem hyggst byggja og reka vatnsaflsvirkjun sem framleiðir orku úr endurnýjanlegum orkugjafa, en eyðileggur jafnframt mikilvægt búsvæði dýrategundar vegna uppistöðulóns. Þrátt fyrir að slík atvinnustarfsemi gæti komið í veg fyrir losun gróðurhúsalofttegunda væri hún ekki sjálfbær þar sem hún bryti í bága við markmiðið um vernd og endurheimt líffræðilegs fjölbreytileika og vistkerfa.
Í þriðja lagi þarf atvinnustarfsemi að starfa í samræmi við lágmarkskröfur tiltekinna alþjóðlegra reglna og staðla. Þriðja skilyrðið tryggir að engin atvinnustarfsemi verði talin sjálfbær án þess að virtar séu reglur um stjórnunarhætti fyrirtækja, mannréttindi og önnur félagsleg réttindi.
Í fjórða lagi þarf atvinnustarfsemi að fullnægja kröfum sem framkvæmdastjórn ESB setur í þar til gerðum tæknilegum viðmiðunarreglum.
Upplýsingaskylda
Auk þess að setja upp flokkunarkerfi gerir Evrópusambandið kröfur um gagnsæi og birtingu upplýsinga. Þátttakendur á fjármálamarkaði sem bjóða upp á sjálfbærar fjárfestingar eða fjárfestingar sem styðja við umhverfið þurfa því að birta upplýsingar um hvaða markmið fjárfestingin styður við og hvernig og að hve miklu leyti það er gert.
Athygli vekur að þegar boðið er upp á fjármálaafurðir sem eru hvorki sjálfbærar né styðja við umhverfið verður að birta sérstaka yfirlýsingu um að ekki sé tekið tillit til skilyrða flokkunarkerfisins. Kröfur um birtingu upplýsinga varðandi sjálfbærni fjárfestinga ná þ.a.l. til allra þeirra sem bjóða upp á fjármálaafurðir, hvort sem þær eru sjálfbærar eða ekki.
Sameiginlegir hagsmunir fjárfesta og umhverfisins
ESB vill stuðla að sjálfbærum fjármálum m.a. með því að tryggja að hagsmunir fjárfesta og umhverfisins fari saman. Með flokkunarkerfinu reynir ESB að slá þrjár flugur í einu höggi hvað þetta varðar. Reglugerðin einfaldar fjárfestum að bera fjárfestingar saman eftir sjálfbærni þeirra og hvetur þá til að velja sjálfbæra fjárfestingu umfram fjárfestingu sem er það ekki, þótt þær séu að öðru leyti sambærilegar. Aukið traust og eftirspurn fjárfesta eftir sjálfbærum fjárfestingum gefur þátttakendum á fjármálamarkaði tilefni til að setja fjármálaafurðir sjálfbærra fyrirtækja í eignasöfn sín. Af framangreindu leiðir að félög, sem reka sjálfbæra atvinnustarfsemi, eiga auðveldara með að fjármagna sig, sem hvetur önnur félög til að gera starfsemi sína sjálfbæra.
Áhrif á íslensk sveitarfélög
Hvernig til tekst við fjármögnun á starfsemi og fjárfestingu í innviðum sveitarfélaga getur skipt sköpum fyrir afkomu og vöxt sveitarfélaga. Flokkunarkerfi ESB mun að óbreyttu gilda á Evrópska efnahagssvæðinu og því er mikilvægt að sjálfbærni verði höfð að leiðarljósi í allri starfsemi og fjárfestingu íslenskra sveitarfélaga. Það er ekki einungis mikilvægt þegar horft er til umhverfisins og framtíðar komandi kynslóða, heldur getur það haft gríðarleg áhrif á lánshæfi og aðgang íslenskra sveitarfélaga að fjármagni.