Flestir íbúar dreifbýlis hyggja á áframhaldandi búsetur þar

Byggðastofnun hóf á árinu 2019 viðamikla rannsókn á búsetuáformum landsmanna í samstarfi við innlendar og erlendar háskólastofnanir. Tilgangur rannsóknarinnar var að fá greinargott yfirlit um búsetuþróun á Íslandi, orsakir hennar og afleiðingar.

Starfið var leitt af Þóroddi Bjarnasyni prófessor við Háskólann á Akureyri. Fyrsta áfanga lauk 2019 og fjallaði hann um áform fólks sem býr í smærri bæjum og þorpum. Annar og þriðji áfangi voru sambærilegar kannanir, önnur meðal fólks sem býr í dreifbýli og hin í stærri þéttbýliskjörnum og á höfuðborgarsvæðinu.

Niðurstöður annars áfanga verkefnisins, um íbúa sveita og annars strjálbýlis á Íslandi, hafa nú verið birtar í skýrslu. Þar kemur meðal annars fram að um 80% íbúa dreifbýlis landsins eru ánægð með búsetu sína en karlar eru þó ekki jafn ánægðir og konur. Þá eru þeir sem eru 61 árs og eldri ekki jafn ánægðir og þeir sem yngri eru. Þá eru íbúar í strjálbýli á Vestfjörðum ekki eins ánægðir með búsetuna og þeir sem búa í dreifbýli annars staðar á landinu.

Meirihluti íbúa dreifbýlis á Íslandi telur ekki líklegt að þeir flytji burt í framtíðinni, hvorki tímabundið né fyrir fullt og allt. Bændur eru ólíklegri en þeir sem ekki eru bændur til þess að áforma flutninga úr sveitinni. Rúmlega þriðjungur bænda reiknar með því að afkomendur eða aðrir í fjölskyldunni taki við jörðinni þegar þeir hætta búskap.

Atvinnutækifæri eru mikilvægasta einstaka ástæða þess að svarendur segjast ætla að flytja búferlum en aðgengi að menningu og afþreyingu, heilbrigðisþjónustu, nálægð við börn eða stjúpbörn og erfiðar samgöngur skipta einnig verulegu máli. Af þeim sem segjast ætla að flytja á næstu tveimur til þremur árum reikna 27% með að flytja á höfuðborgarsvæðið, 25% ætla að flytja innan sama landshluta, 17% í annan landshluta og fimmtungur til annars lands.