Fleiri konur í áhrifastöður – Alþjóðlegur baráttudagur kvenna, 8. mars 2021

Einungis 30% evrópskra sveitarstjórnarmanna eru konur og einungis 17% evrópskra borgar- og bæjarstjóra eru konur. Þetta er meðal þess sem kom fram á ráðstefnu á vegum Svæðanefndar ESB sem haldin var í tilefni af 8. mars, alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Af þessu tilefni hvetur Svæðanefnd ESB til aðgerða til þess að auka hlut kvenna í áhrifastöðum.

Þátttaka kvenna á Íslandi í sveitarstjórnarmálum er góð í samanburði við önnur Evrópulönd. Ísland er í efsta sæti þegar kemur að kjörnum fulltrúum á sveitarstjórnarstigi með 47%, en fast á eftir fylgir Svíþjóð með 43% fulltrúa. Þá er Ísland einnig í efsta sæti þegar horft er til borgar- og bæjarstjóra með 36% kvenna í framkvæmdastjórastarfinu. Því sæti deilir Ísland með Slóvakíu en næst á eftir kemur Svíþjóð með 33% fulltrúa.

Með hliðsjón af hlut stjórnmálakvenna hér á landi á sveitarstjórnarstigi, vekur það óneitanlega athygli að einungis 38% íslenskra alþingismanna eru konur. Þar standa okkur framar lönd á borð við Svíþjóð með 44% þingmanna, Finnland með 42% þingmanna og Noregur með 41%. Þá eru einnig hlutfallslega fleiri konur á franska þinginu, eða 40% þingmanna.

Slagorð Alþjóðlegs baráttudags kvenna á því einnig við á Íslandi: „Fleiri konur í áhrifastöður“.

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna var fyrst haldinn meðal sósíalískra kvenna í Danmörku, Þýskalandi, Austurríki og Sviss árið 1911, en hér á landi var dagsins sennilega fyrst minnst árið 1932.

Það hefur vissulega mikið áunnist frá 1911, en betur má ef duga skal. Þá hefur Covid-19 neitt okkur til þess að horfast í augu við þann aðstöðumun sem konur og karlar búa við. Konur verða harðar fyrir barðinu á Covid-19 en á sama tíma eru konur í framvarðasveit í baráttunni gegn Covid-19. Þrátt fyrir þetta eru laun kvenna sem standa í eldlínunni 11% lægri en þeirra karla sem eru í sömu stöðu.

Þá leiðir nýleg könnun í ljós að í 87 löndum sem eru með s.k. Covid-19 teymi gætti kynjajafnréttis innan þessara teyma í einungis 3,5% tilvika. Með öðrum orðum, þegar kemur að ákvarðanatöku varðandi Covid-19 þá eru fá sæti fyrir konur. Og þetta á ekki einungis við um Covid-19, heldur varðar þetta öll stig samfélags okkar. Hér að ofan var greint frá ójafnri skiptingu innan sveitarstjórnarstigsins í Evrópu og alls staðar er sömu sögu að segja:

  • Í einungis 22 löndum í heiminum eru konur þjóðarleiðtogar. Ef heldur áfram sem horfir þá munu líða 130 ár þar til helmingur þjóðarleiðtoga heimsins verða konur.
  • Hlutfall kvenna á þjóðþingum hefur vissulega tvöfaldast frá 1995, en samt sem áður eru konur einungis 25% þingmanna í heiminum. Á sama hraða er fulls jafnréttis að vænta árið 2063.
  • Hvað með geira þar sem fyrir fram mætti halda að konur sætu við stjórnvölin? Í 45% tilvika eru konur við stjórnvölin hjá frjálsum félagasamtökum, en þar af eru einungis 25% af stærstu frjálsu félagasamtökunum heimsins stjórnað af konum.
  • Hvað með viðskiptalífið? Þar er enn verra ástand og innan við 10% stjórnenda stórfyrirtækja heimsins eru konur.

Við svo búið verður ekki unað, „Fleiri konur í áhrifastöður“.