Fimm mögulegar sameiningar í farvatninu

Fimm mögulegar sameiningakosningar eru nú í farvatninu. Um er að ræða sameiningar á Snæfellsnesi, í Austur-Húnavatnssýslu, Skagafirði og í Norður-Þingeyjarsýslu.

Mynd: Elín Elísabet og Rán Flygenring

Á Snæfellsnesi standa yfir viðræður milli Snæfellsbæjar og Eyja- og Miklaholtshrepps undir verkefnisheitinu Snæfellingar. Þar verður kosið þann 12. febrúar nk. Verði af sameiningunni verður til tæplega 1.800 manna sveitarfélaga sem nær yfir allt sunnanvert Snæfellsnes og út fyrir Snæfellsjökul. Nánari upplýsingar má finna á snaefellingar.is.

Í Austur-Húnavatnssýslu eru sveitarfélögin Blönduósbær og Húnavatnshreppur í samræðum um sameiningu undir verkefnisheitinu Húnvetningur II. Verði af þeirri sameiningu verður til ríflega 1.300 manna sveitarfélag sem verður ríflega 4.050 ferkílómetrar að stærð og hið áttunda stærsta á landinu öllu. Áformað er að sameiningarkosningin fari fram 19. febrúar 2022. Nánari upplýsingar má finna á hunvetningur.is.

Sameiningarviðræður Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps fara fram undir verkefnisheitinu Skagfirðingar. Með sameiningu allra Skagfirðinga í eitt sveitarfélag verður til fimmta stærsta sveitarfélag landsins, 5.544 ferkílómetrar, með rétt um 4.300 íbúa innanborðs. Þar mun kosning um sameiningu einnig fara fram 19. febrúar 2022. Nánari upplýsingar má finna á skagfirdingar.is.

Loks hafa Svalbarðshreppur og Langanesbyggð annars vegar og Helgafellssveit og Stykkishólmsbær  hins vegar hafið formlegar sameiningarviðræður. Verði af sameiningu Svalbarðshrepps og Langanesbyggðar verður íbúafjöldi sameinaðs sveitarfélags um 600 manns. Á Helgafellssvæðinu búa tæplega 1.300 íbúar.  Ekki hefur verið ákveðið hvenær kosið verður um tillögurnar.

Sveitarfélögin - Samband íslenskra sveitarfélaga